Segir Elísabetu munu afsala sér krúnunni

Elísabet Englandsdrottning hefur verið við völd í 68 ár, lengst …
Elísabet Englandsdrottning hefur verið við völd í 68 ár, lengst allra breskra þjóðhöfðingja. AFP

Elísabet Englandsdrottning mun stíga til hliðar innan sex mánaða og eftirláta syni sínum Karli Bretaprins krúnuna innan sex mánaða. Því heldur konunglegi fréttaritarinn Robert Jobson í það minnsta fram.

Jobson hefur fylgst grannt með konungsfjölskyldunni um áratuga skeið og ritað nokkrar bækur um málefnið. Hann hefur verið konunglegur fréttaritari fyrir Daily Express, The Sun og Evening Standard. Hann var verðlaunaður fyrir „skúbb ársins“ árið 2005 er hann flutti fyrstur fréttir um væntanlegt brúðkaup Karls og Camillu Parker Bowles, nú Kamillu prinsessu.

Í umræðuþættinum Royal Beat sagðist Jobson sannfærður um að Elísabet myndi afsala sér krúnunni í tengslum við 95 ára afmæli sitt í apríl á næsta ári. Undir það tók annar sérfræðingur í málefnum konungsfjölskyldunnar, Jack Royston.

„Ég held að hún muni ekki vilja það. En sé litið raunsætt á málið þá kemur að því að hún þurfi að koma sínum skyldustörfum öllum yfir á Karl, og hvernig á hún að geta horft í augu sonar síns og sagt honum að hann verði ekki konungur?“ sagði Royston.

Karl Bretaprins er 71 árs gamall. Frá þriggja ára aldri …
Karl Bretaprins er 71 árs gamall. Frá þriggja ára aldri hefur hann verið fyrstur í erfðaröðinni. AFP

Vantar fjögur ár í heimsmet

Elísabet er 94 ára gömul og hefur verið drottning í 68 ár, eða frá árinu 1952. Enginn drottning eða konungur hefur setið lengur á valdastóli í Bretlandi en hún. Þá vantar drottninguna aðeins fjögur ár til að slá heimsmet Loðvíks 14. Frakkakonungs, en Sólkonungurinn, eins og hann er gjarnan nefndur, ríkti í 72 ár frá 1643 til 1715.

Þetta er síður en svo í fyrsta skipti sem vangaveltur eru uppi um hugsanlega afsögn Elísabetar. Hávær orðrómur var til að mynda um slíkt árið 2002 er 50 ár voru liðin frá valdatöku hennar.

Ekkert reyndist þó hæft í því og þarf Karl sonur hennar, 71 árs gamall, enn að bíða þess að taka við starfinu sem hann fæddist til að gegna.

Express

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert