„Ekki þriðja Obama-kjörtímabilið“

Joe Biden.
Joe Biden. AFP

Joe Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, segir að samskiptin við Hvíta húsið hafi hingað til verið heiðarleg þegar kemur að valdaskiptunum. Hann segir að þetta sé ekki þriðja Obama-kjörtímabilið. Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali hans við NBC News í gærkvöldi. 

Líkt og greint var frá á mbl.is í gær hefur Biden kynnt hverjir muni gegna ýmsum lykilstöðum í nýrri ríkisstjórn Bandaríkjanna. Donald Trump hefur hingað til ekki viljað viðurkenna niðurstöðu forsetakosninganna 3. nóvember og segir þær falsaðar. Biden staðfesti í viðtalinu við NBC að hann hefði ekki enn heyrt frá Trump frá því bandaríska þjóðin kaus sér nýjan forseta.

Hann segist aftur á móti ekki eiga von á því að tafir verði á embættistökunni. „Þetta fer hægt af stað en ferlið er hafið og það eru tveir mánuðir til stefnu. Þannig að ég hef góða tilfinningu um að okkur takist að hraða þessu,“ segir hann. 

Biden var varaforseti þegar Barack Obama var forseti Bandaríkjanna og í viðtalinu við NBC tók hann það fram að tíminn framundan í Hvíta húsinu yrði ekki þriðja Obama-kjörtímabilið þar sem heimurinn sem við stöndum frammi fyrir í dag er gjörólíkur þeim sem Obama-Biden stjórnin stóð frammi fyrir. 

„Bandaríkin hafa snúið við aftur og tilbúin til þess að leiða heiminn, ekki hopa frá honum,“ segir Biden. 

Frétt NBC News í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert