Verður framleitt á Indlandi

AFP

Indverska lyfjafyrirtækið Hetero mun framleiða yfir 100 milljón skammta af rússneska bóluefninu Spútnik V.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá rússneska fjárfestingasjóðnum RDIF sem er einn af þeim sem standa á bak við þróun bóluefnisins við kórónuveirunni. Til stendur að hefja framleiðsluna snemma á næsta ári.

Fyrr í vikunni greindu rússnesk yfirvöld frá því að klínískar rannsóknir bendi til þess að virkni bóluefnisins sé 95% sem er svipað og annarra bóluefna sem kynnt hafa verið til sögunnar. Hver skammtur af bóluefninu mun kosta 10 bandaríkjadali eða 1.350 krónur, á alþjóðlegum mörkuðum. Það er ódýrara en önnur skráð bóluefni við Covid-19.

Rússland var fyrsta landið til að tilkynna um skráningu bóluefnis við Covid-19 en það var skráð í ágúst. 

mbl.is