Brjálaður vegna fölsunar á Twitter

AFP

Forsætisráðherra Ástralíu er allt annað en ánægður með færslu á Twitter-reikningi talsmanns kínverska utanríkisráðuneytisins þar sem hann birtir falsaða ljósmynd af áströlskum hermanni sem heldur blóðugum hnífi að hálsi barns.

Scott Morrison fordæmir færsluna og segir hana andstyggilega, smánarlega og hræðilega. Hann krefur stjórnvöld í Kína um formlega afsökunarbeiðni. 

Talsmaður kínverska utanríkisráðuneytisins, Lijian Zhao, birti myndina í dag og er um sviðsetta mynd að ræða af manni klæddum áströlskum hermannabúningi sem heldur blóðugum hníf að hálsi barns í Afganistan.

Myndin er vísun í fréttir um að ástralskir hermenn hafi notað hnífa til að drepa tvo 14 ára afganska drengi. Ríkissjónvarpið í Ástralíu hefur birt frétt um að ekki sé minnst á þetta í skýrslu ástralska hersins (ADF). 

Saksóknaraembætti Ástralíu rannsakar nú 19 hermenn sem eru grunaðir um aðild að stríðsglæpum sem framdir voru af sérsveitum landsins í Afganistan á árunum 2005 til 2016.

Morrison segir að kínverska ríkisstjórnin eigi að skammast sín fyrir að hafa birt þessa færslu og hana beri að fjarlægja eins og skot. Samskipti ríkjanna tveggja eru mjög stirð um þessar mundir og versna stöðugt.

Áströlsk yfirvöld hafa gefið út að greiða eigi fórnarlömbum hermannanna í Afganistan miskabætur og herinn fari í umbætur á starfi sínu. Í síðustu viku voru 13 hermenn reknir úr hernum fyrir aðild að vígunum og þeir eiga yfir höfði sér saksókn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert