Drápu saklausa óvopnaða borgara

Angus Campbell, yfirherforingi Ástralíu.
Angus Campbell, yfirherforingi Ástralíu. AFP

Yfirherforingi í her Ástralíu, Angus Campbell, segir að  sannanir séu fyrir því að sérsveitir hans hafi drepið 39 óvopnaða almenna borgara og fanga þegar Ástralía tók þátt í stríðinu í Afganistan. Rannsókn stendur yfir hjá sérstökum saksóknara og að sögn Campbells eru gögnin afar trúverðug.

Campbell vísar þar í upplýsingar sem hann hefur fengið frá sérstökum saksóknara sem hefur rannsakað möguleg brot hermanna í Afganistan á árunum 2005 til 2016. Hann segir að svo virðist sem skelfileg menning hafi ríkt meðal sérsveitarmanna þar sem saklaust fólk var myrt og því leynt. Þetta hafi viðgengist í tæpan áratug. 

Einhverjir þeirra hafi tekið lögin í sínar hendur, brotið reglur, frásögnum breytt, logið og fangar drepnir, segir Campbell sem hefur beðið afgönsku þjóðina afsökunar á þessum brotum hermanna. 

Hann segir framferði hermannanna til skammar og meðal annars komi fram í skýrslunni hvernig nýliðar hafi verið neyddir til að skjóta fanga til þess að ná þeim áfanga að drepa manneskju í fyrsta skipti. Síðan var andlátsskýrslunni breytt. 

Skýrsluhöfundar leggja til að herinn greiði aðstandendum þeirra sem voru drepnir með ólöglegum hætti bætur. Campbell vill ganga lengra og vill að þeir sem beri ábyrgð verði dregnir fyrir dóm þar sem rannsakað yrði hvort viðkomandi hafi gerst sekur um stríðsglæpi. Jafnframt verði einhverjum sem hafa fengið sérstaka viðurkenningu fyrir störf sín í Afganistan gert að skila heiðursmerkjum. 

AFP

Málið kom fyrst fram opinberlega árið 2017 er ríkissjónvarp Ástralíu, ABC, birti svonefnd Afganistan-skjöl þar sem fram kom á ástralskir hermenn hefðu drepið óvopnaða karlmenn og börn í Afganistan. 

Í kjölfarið gerði lögreglan húsleit hjá tveimur fréttamönnum ABC og þeir sakaðir um að birta leynilegar upplýsingar. Jafnframt var leitað í höfuðstöðvum ABC í Sydney í fyrra áður en fallið var frá málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert