Húsleit í höfuðstöðvum ABC

AFP

Ástralska lögreglan gerði húsleit í höfuðstöðvum ríkissjónvarps landsins, ABC, í dag í máli tengdu leka á viðkvæmum upplýsingum til fjölmiðla. Þetta er önnur húsleitin á innan við sólarhring í Ástralíu í tengslum við málið.

Forsvarsmenn ABC segja að lögregla hafi leitað á skrifstofum ABC í Sydney og beindist rannsóknin að þremur blaðamönnum sem tengjast rannsóknarblaðaverkefni fyrir tveimur árum. 

Árið 2017 komust fréttamenn ABC yfir gögn sem sýndu fram á að sérsveitir ástralska hersins hefðu drepið saklausan mann og börn í Afganistan. 

Ástralska alríkislögreglan segir að húsleitin tengist birtingu leynigagna sem brjóti gegn ákvæði hegningarlaga (Crimes Act 1914).

Aðalritstjóri ABC, John Lyons, segir að samkvæmt húsleitarheimildinni hafi þess verið krafist að leitað yrði í handskrifuðum athugasemdum fréttamanna, tölvupóstum, uppköstum frétta, myndskeiðum og eins að upplýst yrði um leyniorð. 

Framkvæmdastjóri ABC, David Anderson, segir afar sjaldgæft að ríkisfjölmiðill þurfi að sætta sig við húsleit sem þessa en ABC leitar nú leiða til þess að stöðva ferlið.

Í gær gerði lögreglan húsleit á heimili blaðamanns í Canberra vegna fréttar um að yfirvöld hafi reynt að hlera samskipti almennings í Ástralíu á heimilum sínum. Báðar fréttirnar, það er njósnir stjórnvalda og morð á saklausum borgurum, byggja á leyniupplýsingum og þóttu afar vandræðalegar fyrir áströlsk yfirvöld, ekki síst leyniþjónustuna. 

Forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, hefur reynt að halda vissri fjarlægð frá málinu en nokkrir dagar eru liðnir síðan hann var endurkjörinn. Hann segir að þetta sé mál lögreglunnar ekki ríkisstjórnarinnar. 

„Ástralía trúir á frelsi fjölmiðla og við erum með skýrar reglur þar að lútandi og um vernd fjölmiðlafrelsis,“ sagði Morrison þegar hann ræddi við fréttamenn í London í dag.

Yfirritstjóri ABC, Craig McMurtrie.
Yfirritstjóri ABC, Craig McMurtrie. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert