Hafa leyst dulmál Stjörnumerkjamorðingjans

Hér má sjá skilaboðin sem morðinginn sendi fyrir hálfri öld.
Hér má sjá skilaboðin sem morðinginn sendi fyrir hálfri öld. Skjáskot úr YouTube-myndskeiðinu

Þremur einstaklingum hefur tekist að ráða fram úr rúmlega hálfrar aldar gömlu dulmáli Stjörnumerkjamorðingjans svokallaða (e. Zodiac Killer) sem er að finna í skilaboðum sem hann sendi til dagblaðsins San Francisco Chronicle árið 1969. 

Fram kemur á vef BBC, að bandaríska alríkislögreglan hafi staðfest þessar fregnir. 

Morðinginn, sem náðist aldrei, myrti fimm manns á seinni hluta sjöunda áratugarins í og við San Francisco í Bandaríkjunum. Hann stakk eða skaut fólkið til bana.

Skilaboðin dularfullu eru ein af nokkrum sem hann sendi á ritstjórnarskrifstofur dagblaða þegar hann framdi ódæðin. 

BBC greinir frá því að þremur einstaklingum, einum frá Bandaríkjunum, öðrum frá Belgíu og hinum þriðja frá Ástralíu, hafi tekist að leysa ráðgátuna. 

„Ég vona að þið skemmtið ykkur vel við að reyna að ná mér. Ég er ekki hræddur við gasklefann því hann mun senda mig til paradísar sem fyrst því nú er ég með nægilega marga þræla sem starfa fyrir mig,“ segir í skilaboðunum. Það er þó ekkert sem bendir til þess hver hafi verið morðinginn.

Vefhönnuðurinn David Oranchak, sem er búsettur í Virginíu í Bandaríkjunum, hefur birt myndskeið á YouTube þar sem hann greinir frá því að hann hafi ráðið fram úr þessu með aðstoð Sam Blake, sem er ástralskur stærðfræðingur, og Jarl Van Eycke, sem stýrir vöruhúsi í Belgíu og hannar tölvuhugbúnað sem ætlað er að ætlað að leysa dulmál. 

Oranchak segir að skilaboðin sé enn eitt „draslið“ frá morðingjanum til að sækjast eftir athygli. Þau samanstóðu af röðum af bókstöfum í hástöfum og táknum. Teymið, sem beitti bæði hugviti og hugbúnað til að leysa ráðgátuna, segja að þetta sé gert í minningu þeirra sem létust og ættingja þerira. 

Talsmenn FBI, sem hafa staðfest þessa niðurstöður, segja að þetta verði notað til grundvallar til að sækjast eftir réttlæti fyrir þá sem létust. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert