Erdogan bólusettur með Sinovac

Mynd sem tekin var í bólusetningunni.
Mynd sem tekin var í bólusetningunni. AFP

Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, var í dag bólusettur fyrir kórónuveirunni. Bólusetningin fór fram í beinni útsendingu, en að því er haft er eftir talsmanni hans var það gert til að auka trú fólks á bóluefnum gegn veirunni. Reuters greinir frá. 

Tyrkir hófu nýverið að bólusetja íbúa þar í landi og notast er við kínverska bóluefnið Sinovac. Nú þegar hafa heilbrigðisstarfsmenn verið sprautaðir, talið er að fjöldi þeirra hlaupi á um 250 þúsund. 

Veiran hefur verið mjög skæð í Tyrklandi og alls hafa um 23 þúsund látið lífið vegna hennar. Erdogan fékk fyrri skammt bóluefnisins í dag á spítala í Ankara. Samferða honum var heilbrigðisráðherra landsins, Fahrettin Koca, sem jafnframt var bólusettur í gær. 

Erodgan tjáði sig við blaðamenn eftir bólusetninguna þar sem hvatti alla háttsetta stjórnmálamenn til að láta bólusetja sig. „Brátt bætast við 25 til 30 milljónir skammta af bóluefni og við munum bólusetja fólk á miklum hraða,“ sagði Erdogan og bætti við að öll bóluefnin komi frá Kína, Sinovac. 

Erdogan sat slakur meðan á bólusetningunni stóð.
Erdogan sat slakur meðan á bólusetningunni stóð. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert