Taka átti kjörna fulltrúa af lífi

Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu af ætlun múgsins …
Alríkislögregla Bandaríkjanna hefur komist að þeirri niðurstöðu af ætlun múgsins sem braust inn í þinghús Bandaríkjanna 6. janúar hafi verið að handsama og aflífa fulltrúa þingsins. AFP

Saksóknari í Bandaríkjunum segir stuðningsmenn Trump Bandaríkjaforseta, sem brutu sér leið inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar með skelfilegum afleiðingum, hafi ætlað sér að handsama kjörna fulltrúa og taka þá af lífi.

Þetta kemur fram í nýjum dómsskjölum saksóknara. 

Dómsskjölin sem lögð voru fram af lögmönnum dómsmálaráðuneytisins í gær, voru m.a. gæsluvarðhaldsbeiðnir yfir Jacob Chansley, einnig þekktur sem Jake Ang­eli. Jake er maðurinn sem klæddist hornum og feldi og var áberandi meðal stuðningsmanna sem brutust inn í þinghúsið. Hann er þekktur fyrir að aðhyllast QAnon samsæriskenningar og kallar sjálfan sig QAnon seiðkarlinn.

Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald á Jacob Chansley.
Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald á Jacob Chansley. AFP

Skildi eftir skilaboð fyrir Pence

„Sterk sönnunargögn, þar á meðal orðfæri og hegðun Chansleys í þinghúsinu, styðja að ætlun múgsins hafi verið að handsama og taka af kjörna fulltrúa í stjórnkerfi Bandaríkjanna af lífi,“ segir saksóknari um óeirðirnar þann 6. janúar. 

Hluti stuðningsmanna Trump sem butust inn í þinghús Bandaríkjanna þann …
Hluti stuðningsmanna Trump sem butust inn í þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar. Rannsókn lögreglu hefur leitt í ljós að til stóð að handsama og aflífa kjörna fulltrúa þingsins. AFP

Þá segir í skjölunum að Chansley hafi skilið eftir skilaboð á ræðupúlti Mike Pence, varaforseta og forseta öldungadeildarinnar, þar sem hann stóð einungis nokkrum andartökum áður. Á þeim stóð „Þetta er einungis tímaspursmál, réttlætið er á leiðinni“.

Chansley á að mæta fyrir rétt í dag en lögregla telur hann neyta fíkniefna að staðaldri og að hann glími við geðræn vandamál. 

„Chansley hefur talað opinskátt um trú sína á að hann sé í raun geimvera sem, æðri vera, og að hann sé hér á jörðu til að hverfa í annan raunveruleika,“ segir í málsgögnum. Hann er talin hættulegur umhverfi sínu og hætt sé á að hann reyni að flýja.

Skjölin gefa frekari innsýn í rannsókn Alríkislögreglunnar FBI á atburðum dagsins sem leiddi til ringulreiðar og óeirða þar sem fimm létust.

Ólympíverðlaunahafi meðal kærðra

Yfirvöld vinna nú að kærum á hendur einstaklinga sem tóku þátt í óeirðunum, þar á meðal á hendur manns sem veifaði suðurríkjafánanum innan þinghússins, manns sem að klæddist  „Camp Auschwitz“ peysu og ólympíuverðlaunahafa í sundi.

Snara á gálga sem settur var upp fyrir utan þinghús …
Snara á gálga sem settur var upp fyrir utan þinghús Bandaríkjanna daginn sem mótmælin urðu að óeirðum. AFP
Maður gekk um þinghúsið með suðurríkjafána sem tengdur er við …
Maður gekk um þinghúsið með suðurríkjafána sem tengdur er við kynþáttahatur. AFP
mbl.is