Háskólakennarar hóta verkfalli

Cambridge-háskóli er einn þeirra skóla sem hefur tilkynnt að kennsla …
Cambridge-háskóli er einn þeirra skóla sem hefur tilkynnt að kennsla muni framvegis fara fram á netinu. Ljósmynd/Andrew Dunn

Stéttarfélag breskra háskólakennara (UCU) hótar verkfalli ef staðkennsla verður tekin upp að nýju á þessu námsári. Félagið hefur tilkynnt að kennarar muni ekki sætta sig við þær óöruggu aðstæður sem myndast við staðkennslu í núverandi aðstæðum og hvatt skólastjórnendur til að huga að öryggi kennara. The Guardian greinir frá.

Tilkynning UCU kemur í kjölfar kröfu frá félagi háskólanema (NUS) um að háskólar hætti að rukka nemendur um skólagjöld og endurgreiði þeim leigukostnað, en háskólanemar í Bretlandi voru beðnir um að snúa ekki aftur á heimavistir sínar eftir áramót.

London School of Economics.
London School of Economics. Ljósmynd/Wikipedia

Sumir háskólar, á borð við Cambridge, London School of Economics og York-háskóli, hafa þegar tilkynnt að öll kennsla muni fari fram á netinu út þetta námsár, en aðrir stefna á að hefja staðkennslu upp úr miðjum febrúar, í samræmi við tilmæli ríkisstjórnar Bretlands.

Forseti UCU, Jo Grady, segir í viðtali við The Observer að félagið treysti ekki ákvörðunum ríkisstjórnarinnar, og þurfi að taka öryggi félagsmanna sinna í eigin hendur. Staðkennsla muni hafa í för með sér gríðarlegt álag og áhættu fyrir kennara, og því ætti kennsla að fara fram á netinu þangað til faraldurinn hjaðnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert