Nirmal Purja fór á topp K2 án súrefnisbirgða

„Að klífa K2 að vetrarlagi var mikil áskorun. Ég trúi því staðfastlega að afrek á slíkum skala séu ekki möguleg ef þú hefur ekki tilgang eða ef eina markmið þitt er að hljóta frægð,“ þannig hefst Facebook-færsla nepalska fjallgöngumannsins Nirmal Purja sem varð um helgina, ásamt teymi sínu, fyrstur til að klífa fjallið K2 að vetrarlagi. Hann komst á toppinn án súrefnisbirgða, að eigin sögn.

John Snorri Sigurjónsson fjallgöngumaður stefndi að því að vera fyrstur til að komast á topp K2 að vetrarlagi en nepalski hópurinn varð fyrri til. 

„Ég hef alltaf vitað hvað hugur minn og líkami eru færir um,“ skrifar Purja sem segir að það hafi verið erfitt að ákveða hvort hann ætti að klífa fjallið með súrefnisbirgðir eður ei. Hann ákvað loks að hann þyrfti ekki á súrefnisbirgðum að halda.

Enn er ekki vitað hvort fleiri úr nepalska hópnum, sem samanstóð af 10 manns, hafi ákveðið að sleppa því að nota súrefnisbirgðir í göngunni. 

„Vegna veðurskilyrða og tímarammans hafði ég ekki aðlagast eins og ég þurfi. Ég gat einungis sofið í búðum tvö (í 6.600 metra hæð). Helst eiga fjallgöngumenn að sofa eða í það minnsta mæta í fjórðu búðir áður en þeir halda í lokakaflann, á toppinn,“ skrifar Purja. 

Enginn missti fingur eða tær

Hann segir að öryggi teymis hans hafi alltaf verið honum forgangsatriði en skortur á aðlögun og frostbit hafi stefnt öryggi þeirra í hættu. 

„Ég hef leitt 20 vel heppnaða leiðangra hingað til og öll mín teymi hafa snúið heim nákvæmlega eins og þegar þau fóru, þ.e.a.s. án þess að missa fingur eða tær,“ skrifar Purja.

„Ég reiknaði út áhættuna þegar ég hélt áfram án auka súrefnisbirgða,“ skrifar Purja sem telur sjálfstraust hans og sjálfsþekkingu hafa gert honum kleift að hafa leitt hópinn á toppinn án auka súrefnisbirgða. Hann segir að um sé að ræða persónulegt val. 

K2 winter was a beast of a challenge. I firmly believe that a feat of such caliber is never possible if you don’t have a...

Posted by Nirmal Purja on Mánudagur, 18. janúar 2021
Nirmal Purja var ásamt teymi sínu fyrstur til að klífa …
Nirmal Purja var ásamt teymi sínu fyrstur til að klífa K2 að vetrarlagi. AFP
mbl.is