Stöðvuðu 400 manna brúðkaupsveislu

Lögreglubíll á ferðinni í London.
Lögreglubíll á ferðinni í London. AFP

Breska lögreglan stöðvaði brúðkaupsveislu með 400 gestum í skóla í London í dag. Lögreglan var að framfylgja sóttvarnalögum til að stemma stigu við kórónuveirunni.

Lög kveða á um að brúðkaup megi ekki fara fram nema við sérstakar aðstæður og þá mega aðeins sex manns vera viðstaddir.

Þegar lögreglan kom í skólann voru hundruð manna staddir þar. Búið var að birgja fyrir gluggana. Að sögn yfirlögregluþjónsins Marcus Barnett var þarna á ferðinni „algjörlega óásættanlegt lögbrot“.

Skipuleggjendur veislunnar eiga yfir höfði sér 10 þúsund punda sekt, eða í kringum 1,8 milljónir króna. Margir gestir flúðu vettvang en það náðist í skottið á fimm þeirra. Þeir voru sektaðir um 200 pund.

mbl.is