Fyrsta smit á Nýja-Sjálandi í tvo mánuði

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Kona á sextugsaldri greindist um helgina með kórónuveiruna á Nýja-Sjálandi. Er það fyrsta innanlandssmit í landinu í tvo mánuði.

Konan var nýkomin frá Evrópu en hafði lokið við tveggja vikna sóttkví á sóttkvíarhóteli ríkisins þegar hún greindist. Rannsókn stendur yfir á því hvernig konan smitaðist meðan á dvöl á sóttkvíarhótelinu stóð, en meðal annars er til skoðunar hvort smitið hafi borist með loftræstikerfi hótelsins.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðisráðuneyti landsins hafa 15 nákomnir konunni verið sendir í sýnatöku en enginn þeirra greinst með veiruna.

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, sagði smitið til marks um að veiran væri enn ógn við heilsu þjóðarinnar. Þjóðir heims hafa horft öfundaraugum til Nýja-Sjálands síðustu mánuði þar sem tekist hefur að útrýma veirunni úr samfélaginu og líf hefur verið með eðlilegum hætti síðustu mánuði. Þá gagnrýndi hún áströlsk stjórnvöld fyrir að afnema undanþágu frá sóttkví fyrir nýsjálenska ferðamenn um leið og fréttirnar af smitinu bárust.

Landamæri lokuð stærstan hluta ársins

Landamæri Nýja-Sjálands hafa verið nær alfarið lokuð frá því í mars. Ferðamönnum er ekki heimilt að koma til landsins, og ríkisborgurum og íbúum Nýja-Sjálands sem snúa heim eftir dvöl erlendis er skylt að dvelja tvær vikur á sóttkvíarhóteli ríkisins og borga sjálfir fyrir uppihald. Á blaðamannafundi í dag sagði Ardern að ekki væri útlit fyrir breytingar í bráð.

„Að teknu tilliti til hættunnar í heiminum og óvissu með dreifingu bóluefna getum við gert ráð fyrir að áhrifa muni gæta á landamærum stærstan hluta ársins,“ sagði Ardern á blaðamannafundi. Hún sagði þó að áfram yrði reynt að koma á einhvers konar ferðasvæði með Ástralíu og öðrum Kyrrahafseyjum sem hafa náð góðum árangri í baráttunni gegn veirunni.

Líklegt er að landamæri Nýja-Sjálands verði lokuð vegna kórónufaraldursins stærstan hluta ársins. Þetta sagði Jacinda Ardern forsætisráðherra Nýja-Sjálands í morgun.

mbl.is