McConnell segir hugmyndir Greene „krabbamein“

Mitch McConnell er lítt hrifinn af Marjorie Taylor Greene.
Mitch McConnell er lítt hrifinn af Marjorie Taylor Greene. Samsett mynd/AFP

Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í bandaríska þinginu, gaf í dag út yfirlýsingu um hina umdeildu þingkonu Marjorie Taylor Greene, þar sem hann sagði „brjálæðislegar lygar og samsæriskenningar“ hennar „krabbamein“ fyrir Repúblikanaflokkinn. 

„Brjálæðislegar lygar og samsæriskenningar eru krabbamein fyrir Repúblikanaflokkinn og land okkar,“ sagði McConnell í yfirlýsingunni. 

„Einhver sem hefur stungið upp á því að ef til vill hafi engin flugvél flogið á Pentagon þann 11. september, að skelfilegar skotárásir í skólum hafi verið sviðsettar fyrirfram [...] lifir ekki í raunveruleikanum. Þetta hefur ekkert með áskoranir sem amerískar fjölskyldur standa frammi fyrir að gera eða öflugar umræður sem geta styrkt flokkinn okkar,“ sagði McConnell. 

Þó hann hafi ekki nefnt Greene beinlínis stendur yfirlýsing hans sem harðorð áminning um nýju þingkonuna. Hún var snögg til svara og skaut á McConnell á Twitter. Þar fullyrti hún að „raunverulegt krabbamein fyrir Repúblikanaflokkinn [væru] veikir repúblikanar sem aðeins [kynnu] að tapa á virðulegan hátt,“ skrifaði Greene og bætti við:

„Þetta er ástæðan fyrir því að við erum að missa landið okkar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert