Róttækur repúblikani í vanda staddur

Þessi mynd var tekin af Marjorie Taylor Greene 3. janúar.
Þessi mynd var tekin af Marjorie Taylor Greene 3. janúar. AFP

Þingmaður Demókrataflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hyggst leggja til að umdeildur þingmaður Repúblikanaflokksins verði rekinn úr fulltrúadeildinni vegna ögrandi ummæla og hegðunar á samfélagsmiðlum.

Marjorie Taylor Greene, sem er 46 ára nýkjörinn þingmaður frá Georgíu, hefur stutt samsæriskenningar sem hægri öfgahreyfingin QAnon hefur sett fram sem tengjast tilhæfulausum fullyrðingum Donalds Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um að kosningasvindl hafi átt sér stað í síðustu forsetakosningum.

Fyrir tíst þess efnis var hún bönnuð í 12 klukkustundir á Twitter.

Í þessari viku lenti hún í pólitísku kviksyndi vegna færslna, sem nýlega voru birtar, þar sem hún lýsir stuðningi við að þingmenn demókrata verði teknir af lífi.

Greene, sem er stuðningsmaður þess að almenningur fái að bera byssur, hefur neitað því að gangast undir öryggisleit í fulltrúadeildinni. Fyrir vikið hefur Nancy Pelosi, forseti deildarinnar, varað við því að „óvinur“ starfi á þinginu.

Greene við öryggishliðið í þinghúsinu.
Greene við öryggishliðið í þinghúsinu. AFP

Repúblikaninn Kevin McCarthy, leiðtogi minnihlutans í fulltrúadeildinni, er sagður hafa óskað eftir fundi með Greene vegna málsins.

Greene lýsti sig sammála færslu sem notandi á Facebook setti inn árið 2019 um að „byssukúla í höfuðið“ yrði til þess að Pelosi færi fljótt frá völdum, að því er CNN greindi frá í dag.

Nancy Pelosi.
Nancy Pelosi. AFP

Í ræðu sem Greene hélt áður en hún bauð sig fram til Bandaríkjaþings árið 2020, sem CNN hefur birt en hefur síðan verið fjarlægð af vegg hennar á Facebook, kallaði hún Pelosi „föðurlandssvikara“ sem ætti að taka af lífi.

„Það er hægt að taka fólk af lífi fyrir föðurlandssvik. Nancy Pelosi hefur gerst sek um föðurlandssvik,“ sagði hún.

Pelosi segir að auka þurfi fjárframlög vegna öryggisgæslu á þinginu því „innan fulltrúadeildarinnar er óvinur“.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert