„Maðurinn sem kom Lilibet til að hlæja“

Breskir fjölmiðlar eru óvenjulega samstiga þennan morguninn er þeir minnast Filippusar prins, eiginmanns Elísabetar Englandsdrottningar og hertoga af Edinborg, en hann lést í gærmorgun í svefni í Windsorkastalanum vestur af London.

Hann fæddist á grísku eyjunni Korfú árið 1921 og hefði fagnað 100 ára afmæli í júní á þessu ári hefði hann lifað. Fjölmiðlarnir leggja áherslu á mikilvægi þeirra hjóna innan konungsfjölskyldunnar og samstöðu þeirra í sjö áratugi. Bæði Guardian og Times segja Filippus hafa verið staðfastan stuðningsmann drottningar og Daily Star segir hann klett hennar og manninn sem kom Lilibet til að hlæja en Lilibet er gælunafn drottningar.

Skosku dagblöðin kveðja einnig klettinn og birta meðal annars mynd af ungu konungshjónum með börnin í skotapilsum.

Daily Mirror og Daily Mail birta heilsíðumyndir af konungshjónunum á forsíðu með fyrirsögnunum: Vertu sæll, minn heittelskaði (Farewell, my beloved) og Bless, minn heittelskaði (Goodbye, my beloved).

Mirror segir andlát hertogans sameina konungsfjölskylduna í sorginni og að Harry prins hafi sett ágreininginn til hliðar á sama tíma og hann reynir að snúa heim frá Bandaríkjunum til að vera viðstaddur útförina.

AFP

Filippus prins heimsótti Ísland í lok júní 1964 og dvaldist hér í þrjá daga. Heimsóknin þótti einstaklega vel heppnuð í alla staði og átti hertoginn hug og hjörtu landsmanna allt frá þeirri stundu er hann steig á land af hraðbáti við Loftsbryggju að morgni hins 30. júní. Um var að ræða fyrstu konunglegu bresku heimsóknina til Íslands. Hingað sigldi Filippus prins með Britanniu, snekkju bresku konungsfjölskyldunnar, og fór hringinn í kringum landið áður en snekkjan lagði á ytri höfninni í Reykjavík.

Vakti ávarp Filippusar af svölum Alþingishússins í upphafi heimsóknarinnar mikla athygli því hann mælti á íslensku. „Drottningin og ég höfðum mikla ánægju af að taka á móti forseta Íslands í London. Er mér það sérstök ánægja að vera nú kominn til Íslands. Ég þakka ykkur innilega fyrir vinsamlegar móttökur.“

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert