Dæmdur í fangelsi fyrir dýraníð

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. AFP

Norskur karlmaður hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart hundum og er þetta í fyrsta skipti sem einstaklingur er dæmdur í fangelsi fyrir slíkt brot þar í landi. Talið er að dómurinn geti haft fordæmisgildi að sögn saksóknara lögreglunnar.

Í frétt norska ríkisútvarpsins kemur fram að maðurinn hafi verið ákærður fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart hundum í meira en 20 skipti á átta ára tímabili.

Morten Lundén saksóknari fór með málið fyrir héraðsdómi í Nedre Romerike og hafði hann farið fram á átta mánaða fangelsi yfir manninum sem er um þrítugt. Niðurstaða dómsins er fimm mánaða fangelsi.

Fram kemur í fréttinni að maðurinn hafi þvingað hunda sína til kynferðisathafna með sér auk fleiri kynferðisbrota. Aldrei áður hefur einstaklingur verið dæmdur í fangelsi fyrir dýraníð af þessu tagi. Er talið að þar skipti máli að í lögum um dýravelferð frá 1972 til 2009 hafi ekki verið kveðið á um að dýraníð væri saknæmt.

Í fréttinni kemur fram að NRK og fleiri norskir fjölmiðlar hafi fjallað um sambærileg mál bæði í Rogalandi og Þrændalögum. Í Þrændalögum hafi maður verið ákærður fyrir að boðið hunda sína fram til annarra sem vildu brjóta gegn þeim kynferðislega. Þar hafi þrír einstaklingar verið dæmdir til að greiða sekt fyrir slík brot. Í einu tilviki er ekki fallinn dómur og því geti þessi dómur sem nú er fallinn haft fordæmisgildi.

mbl.is