Afklæðist hempunni fyrir ástina

San Felice-kirkjan í bænum Massa Martana.
San Felice-kirkjan í bænum Massa Martana. Ljósmynd/Wikipedia.org/LigaDue

Kirkjugestir í ítölskum smábæ göptu í forundran þegar prestur þeirra skriftaði óvænt við messu á sunnudag. Þar greindi hann frá því að hann myndi láta af embætti sem prestur hjá kaþólsku kirkjunni þar sem hann væri ástfanginn. 

Riccardo Ceccobelli er 42 ára gamall og hefur verið prestur við San Felice-kirkjuna í bænum Massa Martana í Perugia í sex ár. Í tilkynningu frá biskupsdæminu í dag lýsir Ceccobelli þessari tilfinningu sem hafi heltekið hann – ástinni. 

Hann geti ekki haldið áfram að sinna störfum sínum eins og áður þar sem hjarta hans sé fullt af ást þrátt fyrir að hann hafi ekki brotið gegn heitum þeim sem hann gerði gagnvart kirkjunni á sínum tíma. Hann langi til þess að upplifa ástina í stað þess að bæla hana niður.

Ceccobelli hefur þegar fengið samþykki Gualtiero Sigismondi biskups til þess að afklæðast hempunni. Biskupinn var einmitt við hlið prestsins þegar hann tilkynnti söfnuði sínum frá þessum breytingum á lífi hans á sunnudag.

Fjallað er um ástfangna prestinn í mörgum af helstu fjölmiðlum Ítala í dag og þakkar biskup , Don Riccardo, fyrir störf hans fyrir kaþólsku kirkjuna. 

mbl.is