ESB höfðar mál gegn AstraZeneca

AFP

Evrópusambandið hefur höfðað mál gegn lyfjarisanum AstraZeneca vegna þess að fyrirtækið hefur ekki staðið við afhendingu á bóluefni til ríkja sambandsins.

Talsmaður ESB, Stefan De Keersmaecker, staðfesti í dag að framkvæmdastjórnin hefði á föstudag höfðað mál gegn AstraZeneca á grundvelli brota á kaupsamningi. Samkomulagið hafi ekki verið virt að fullu og að lyfjafyrirtækið hafi ekki getað lagt fram áreiðanlega afhendingaráætlun um að tryggt sé að bóluefnið sé afhent á umsömdum tíma. 

De Keersmaecker segir að ESB höfði málið fyrir hönd allra ríkja ESB og ríkin 27 standi heilshugar á bak við málaferlin. Ástæðan fyrir því að sambandið ákvað að höfða mál gegn AstraZeneca sé að tryggja að þeir skammtar sem fyrirtækið ætlaði að afhenda berist með hraði.

Framkvæmdastjórnin greindi ríkjunum frá fyrirhugaðri málsókn í síðustu viku. Talið er að málið verði tekið fyrir í Belgíu. 

AstraZeneca hefur nú afhent 31 milljón af þeim 120 milljónum bóluefnaskammta sem fyrirtækið hafði heitið ESB að vera búið að afhenda. Það hefur varað við því að ekki sé útlit fyrir að það geti afhent nema 70 milljónir af þeim 180 milljónum skammta sem það hét að afhenda fyrir lok árs 2021.

Forstjóri AstraZeneca, Pascal Soriot, segir að samningurinn við ESB sé aðeins bindandi að því leyti að fyrirtækið muni afhenda eins mikið og mögulegt er. Framkvæmdastjórnin hafnar þessu aftur á móti og segir að samkomulagið geri meiri kröfur á fyrirtækið en þetta og líkt og bent hafi verið á þá hafi AstraZeneca afhent Bretum nánast allt það bóluefni sem til stóð að afhenda þar. Höfuðstöðvar lyfjafyrirtækisins eru í Bretlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert