Netanyahu: Árásir áfram eins lengi og þörf er á

Björgunarsveitir leita í rústum byggingar í Rimal-hverfinu í Gaza eftir …
Björgunarsveitir leita í rústum byggingar í Rimal-hverfinu í Gaza eftir að eldflaugaárásir Ísraelshers jöfnuðu bygginguna við jörðu. AFP

Átökin á milli ísra­elska hers­ins og víga­sveita Ham­as á Gaza-svæðinu héldu áfram í nótt og í morgun, en í nótt gerðu Ísraelsmenn árás á heimili Yahya Sinwar, yfirmanns pólitíska vængs Hamas-samtakanna á Gaza-svæðinu. Ísraelski herinn tilkynnti um árásina, en ekki kemur fram hvort Sinwar hafi verið drepinn. Auk þess var skotið á heimili Muhammad Sinwar, bróður Yahya, en Muhammad er yfirmaður herafla Hamas á svæðinu. Heilbrigðisyfirvöld á Gaza-svæðinu staðfesta að alla vega þrír hafi fallið í nótt í árásum Ísraela.

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna mun í dag funda vegna átakanna, en áður hafði fundur verið boðaður á föstudaginn. Bandaríkin, sem eru eitt 15 fastaríkja ráðsins, höfðu hafnað þeim fundi og því frestaðist hann til dagsins í dag.

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í gær að árásir Ísraels á Gaza-svæðið myndu halda áfram eins lengi og þörf væri á.

Biden ræddi við bæði Netanyahu og Abbas

Í gær ræddi Joe Biden Bandaríkjaforseti bæði við Net­anya­hu og Mahmud Abbas for­seta Palestínu. Sagði Biden í samtali sínu við Netanyahu að Hamas-samtökin yrðu að hætta eldflaugaárásum á Ísrael og að hann styddi rétt Ísraels til að verja land sitt fyrir árásum „Hamas og annarra hryðjuverkahópa.“

Biden gerði þó einnig athugasemdir við framgöngu Ísraelshers, en í gær gerði herinn árás á byggingu sem hýsti meðal annars fréttadeildir AP-fréttastofunnar og Al Jazeera. Hrundi byggingin til grunna í árásunum, en áður hafði hún verið rýmd eftir að Ísraelsher tilkynnti að árásin væri yfirvofandi.

Átti Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, samtal við forstjóra AP-fréttastofunnar og lýsti hann þar stuðningi við sjálfstæða fjölmiðla og að þeir þyrftu að geta sagt fréttir frá átakasvæðum.

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna segir geðþóttaákvarðanir brjóta alþjóðalög

Biden ítrekaði bæði í samtölum sínum við Netanyahu og Abbas stuðning Bandaríkjanna við tveggja ríkja lausn deilunnar. Netanyahu sagði í sjónvarpsávarpi í gær að árásin á fjölmiðlabygginguna stafaði af því að þar væri að finna hernaðarlega mikilvæg skotmörk og réttlætti hana með því að segja að byggingin hefði verið rýmd fyrir árásina.

Antonio Guterres, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, hefur lýst skelfingu yfir því mannfalli sem hefur orðið í árásum Ísraelshers á Gaza-svæðið, en samtals hafa alla vega 159 látist á þeim sjö dögum sem átökin hafa staðið og eru langflestir þeirra Palestínumenn og þar af alla vega 41 barn. Sagði Guterres að geðþóttaákvarðanir um árásir á óbreytta íbúa og fjölmiðlabyggingar væru brot á alþjóðalögum og þyrfti að koma í veg fyrir slíkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert