Sló hraðamet kvenna upp á Everest

Grunnskólakennarinn fyrrverandi Tsang Yin Hung sló nýtt hraðamet kvenna þegar hún kleif tind Everest-fjalls á aðeins 25 klukkustundum og 50 mínútum. Í viðtali segist hún alltaf hafa trúað á það að setja markið hátt. 

Hin 44 ára Tsang náði tindinum sunnudaginn 23. maí og var komin til baka til Katmandú í Nepal í dag, sunnudag. „Ég er róleg og hamingjusöm, því ég setti mér þetta markmið fyrir fjórum árum. Ég hef alltaf kennt nemendum mínum og vinum að ef maður setur markið hátt, hefur miklar væntingar, þá geti maður náð langt,“ sagði Tsang við fjölmiðla í Katmandú í dag. 

Tsang reyndi að ná tindinum fyrr í maí en gat það ekki vegna veðursins. Þá var hún komin í 8.755 metra hæð, en tindurinn stendur í 8.848,86 metra hæð. Hún þurfti að snúa aftur í grunnbúðir fjallsins og reyna aftur við tindinn síðar.

Fjallgöngukonan Tsang Yin-hung náði tindi Everest á 25 klukkustundum og …
Fjallgöngukonan Tsang Yin-hung náði tindi Everest á 25 klukkustundum og 50 mínútum. AFP

Hóf að æfa fyrir ellefu árum

Tsang fæddist á meginlandi Kína en flutti ásamt fjölskyldu sinni til Hong Kong þegar hún var tíu ára gömul. Íþróttir áttu hug hennar allan þegar hún var barn. 

Fyrir ellefu árum hóf hún að æfa fjallgöngu og náði tindi Everest vorið 2017 fyrst kvenna frá Hong Kong. Ári seinna setti fjallgöngukonan Jhangmu Lama hraðamet kvenna þegar hún náði tindi Everest á 39 klukkustundum og 6 mínútum. 

Alls voru gefin út leyfi til 408 göngugarpa til að klífa Everest í ár. Enginn leyfi voru gefin út í fyrra vegna heimsfaraldursins. Hópsmit kom upp í grunnbúðum Everest um miðjan maí og voru að minnsta kosti 100 smit greind þar. 

Fleiri met voru slegin á Everest í ár en Nepalinn Kami Rita Sherpa sló sitt eigið met í flestum ferðum á tind Everest þegar hann náði toppinum í 25. skipti. 

Arthur Muir varð elsti bandaríkjamaðurinn til að ná tindinum. Hann er 75 ára gamall. Fyrir átti Bill Burke metið sem hann setti þegar hann var 67 ára árið 2009. 

Tsang setti sér það markmið að slá hraðamet kvenna á …
Tsang setti sér það markmið að slá hraðamet kvenna á Everest fyrir fjórum árum. AFP
mbl.is