Danir stíga stór skref í tilslökunum

Danska landsliðið keppir á EM. Frá vináttulandsleik á móti Þýskalandi …
Danska landsliðið keppir á EM. Frá vináttulandsleik á móti Þýskalandi 2. júní. AFP

Danska þingið náði í nótt samkomulagi um tilslakanir í landinu. Í nýjum tilslökunum felst meðal annars að frá og með mánudeginum verður grímuskylda að mestu afnumin og opnunartími bara og veitingastaða verður rýmkaður til miðnættis. Þá verður aukinn fjöldi áhorfenda leyfður á þjóðarleikvangi Dana þar sem leikir í Evrópumótinu í knattspyrnu fara fram.

Frá og með 1. júlí verða samkomutakmarkanir innandyra jafnframt rýmkaðar upp í 250 manns. 

Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Dana, segir að nýju tilslakanirnar séu mikilvægur liður í opnun dansks samfélags. 

Frá og með mánudegi verður einungis grímuskylda í almenningssamgöngum að sögn Heunicke, sem ræddi við DR í kjölfar þingfundar snemma í morgun. Grímuskylda verður með öllu afnumin 1. september. 

Samkvæmt núgildandi takmörkunum verða veitingastaðir og barir að láta af sölu á áfengis klukkan 22 og gestir verða að hafa yfirgefið staðina klukkan 23. Frá og með föstudeginum verður veitingastöðum og börum heimilt að hafa opið til miðnættis og 15. júlí verður leyfilegur opnunartími til klukkan 2 á nóttunni. Þá verður verslunum einnig heimilt að hafa opið eftir klukkan 22. 

Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur.
Magnus Heunicke, heilbrigðisráðherra Danmerkur. AFP

Frá og með mánudegi verður starfsemi bókasafna rýmkuð ásamt starfsemi í tengslum við félagsstörf. 1. ágúst verða svo reglur sem gilda um leikhús, viðburði og íþróttir innanhúss rýmkaðar. Þá verða reglur sem gilda um neikvæð PCR-próf, sem Danir þurfa nú að sýna fram á fyrir ákveðna starfsemi, rýmkaðar þannig að neikvæð niðurstaða telst gild í 96 klukkustundir frá og með 1. júlí. 

Þá er til skoðunar að leyfa aukinn fjölda áhorfenda á Parken, þjóðarleikvangi Dana, þar sem danska landsliðið mun spila á EM á móti Finnum. Eins og staðan er núna verða 15.900 áhorfendur leyfðir, en skipuleggjendur gætu tekið við 25.000 áhorfendum. Jakob Jensen, framkvæmdastjóri Knattspyrnusambands Danmerkur, segir fyrirvarann fyrir tilslakanir þó of skamman úr þessu. Er því útlit fyrir að einungis verði 15.900 áhorfendur á Parken á laugardag. 

Í samkomulaginu felst einnig að skemmtistaðir fái að opna dyr sínar í fyrsta sinn síðan í mars 2020 frá og með 1. september. Sýna þarf fram á neikvætt PCR-próf til þess að fá inngöngu á slíka staði. Þá er í samkomulaginu varnaðarákvæði sem kveður á um frestun fyrirhugaðra tilslakana ef tilfellum kórónuveirunnar fer hratt fjölgandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert