Tekinn af lífi vegna glæpa sem unglingur

Mustafa al-Darwish var handtekinn árið 2015.
Mustafa al-Darwish var handtekinn árið 2015. Ljósmynd/Reprieve

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa tekið af lífi karlmann fyrir brot sem hann framdi 17 ára að aldri, þrátt fyrir fullyrðingar Sádi-Arabíu um að dauðarefsing vegna brota barna og unglinga hafi verið lögð af.

Mustafa Hashem al-Darwish var handtekinn árið 2015 fyrir brot sem tengdust mótmælum. Yfirvöld segja að hann hafi verið ákærður fyrir tilraun til vopnaðrar uppreisnar. 

Mannréttindahópar höfðu kallað eftir því að aftökunni yrði frestað þar sem réttarhöld yfir Mustafa hafi verið ófullnægjandi. Amnesty International og Reprieve, samtök sem berjast gegn dauðarefsingum, segja að Mustafa, sem var 26 ára, hafi nýlega dregið til baka játningu sem hann gaf við pyntingar. 

Á meðal sönnunargagna sem lögð voru fram gegn Mustafa í máli hans var ljósmynd sem þótti „móðgandi gagnvart öryggissveitum“ og þátttaka hans í yfir 10 mótmælum á árunum 2011 og 2012. 

Innanríkisráðuneyti Sádi-Arabíu segir að Mustafa hafi einnig reynt að verða öryggissveitarliða að bana, en ekkert kom fram í máli hans um hvenær meint morðtilraun átti sér stað. 

Reprieve segir að fjölskylda Mustafa hafi ekki verið látin vita af fyrirhugaðri aftöku hans og fyrst lesið um hana á netinu. „Hvernig geta þeir tekið strák af lífi vegna ljósmyndar á síma hans?“ segir m.a. í yfirlýsingu frá fjölskyldunni. 

Á síðasta ári sögðu yfirvöld í Sádi-Arabíu að þeir, sem hafi framið glæpi undir lögaldri, verði ekki lengur teknir af lífi og myndu einungis fá hámarksfangelsisdóm, 10 ár. Í konunglegri tilskipun sem kvað á um þetta kom jafnframt fram að nýju reglurnar myndu virka afturvirkt. 

Frétt BBC. 

mbl.is