Kveikja leynilega á hljóðnema og myndavél síma

Lista með yfir 50 þúsund símanúmerum snjallsíma einstaklinga hefur verið …
Lista með yfir 50 þúsund símanúmerum snjallsíma einstaklinga hefur verið lekið til fjölmiðla en óvíst er hversu margir þeirra hafa orðið fyrir innbroti í símana sína. Ljósmynd/Úr safni

Brotist hefur verið inn í síma fjölda baráttufólks fyrir mannréttindum, blaðamanna og stjórnmálafólks víða um heim með forriti sem ísraelskt eftirlitsfyrirtæki selur yfirvöldum í einræðisríkjum. Þetta kemur fram í frétt BBC.

Um er að ræða forrit sem heitir Pegasus og er notað til að brjótast inn í síma og fá aðgang að skilaboðum, myndum og tölvupóstum auk þess að taka upp símtöl og kveikja leynilega á hljóðnema og myndavél símans.

Lista með yfir 50 þúsund símanúmerum snjallsíma einstaklinga hefur verið lekið til fjölmiðla en óvíst er hversu margir þeirra hafa orðið fyrir innbroti í símana sína.

Neitar öllum ásökunum

Ísraelska fyrirtækið, NSO Group, neitar öllum ásökunum og segir forritið einungis ætlað til að nota gegn glæpamönnum og hryðjuverkamönnum. Það sé aðeins selt lögregluyfirvöldum og eftirlitsstofnunum ríkja sem virða mannréttindi.

Það segir auk þess að rannsóknir frönsku samtakanna Forbidden Stories og mannréttindasamtakanna Amnesty International um málið séu rangar og órökstuddar.

Unnið er að því að bera kennsl á fólkið sem á símanúmerin á listanum sem var lekið en ljóst er að meðal þeirra eru stjórnmálafólk, þjóðhöfðingjar, aðgerðasinnar, ættmenni arabískra konungsfjölskyldna og rúmlega 180 blaðamenn.

Mörg númeranna eru staðsett í tíu löndum: Aserbaídsjan, Bahrain, Ungverjalandi, Indlandi, Kasakstan, Mexíkó, Rúanda, Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmunum.

Brotist inn í síma unnustu Jamal Khashoggi 

Óljóst er hversu marga síma á listanum hefur verið brotist inn í. Greining á 37 símum sýndu að það hefðu bæði verið gerðar tilraunir til innbrots og árangursrík innbrot í þá. Meðal þeirra sem eiga símana eru aðstandendur sádiarabíska blaðamannsins Jamal Khashoggi sem var myrtur í sendiráði Sádi-Arabíu í Tyrklandi árið 2018.

Pegasus var meðal annars komið fyrir í síma unnustu Jamal nokkrum dögum eftir morðið.

NSO Group hefur sagt að tæknin sem það selur hafi ekki tengst morðinu á nokkurn hátt.  

Fram kemur í frétt BBC að slíkar árásir og njósnir séu ekki nýjar af nálinni. Hins vegar sé umfang þeirra óvenjumikið og á óvart komi að ráðist sé gegn saklausum einstaklingum, svo sem blaðamönnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert