Takmörkunum aflétt á Englandi

Takmörkunum aflétt.
Takmörkunum aflétt. AFP

Öllum takmörkunum vegna kórónuveirunnar hefur nú verið aflétt á Englandi. Frá og með miðnætti verða viðburðir leyfðir, skemmtistaðir opnaðir og hömlum á starf veitingastaða og ölhúsa aflétt. 

Notkun andlitsgríma verður enn ráðlögð við ákveðnar aðstæður en ekki skylda. 

Boris Johnson forsætisráðherra er nú í sóttkví eftir að hafa átt í samskiptum við heilbrigðisráðherra landsins sem greindist um helgina með veiruna, en smitum hefur farið fjölgandi síðustu vikur. Vísindamenn hafa varað við því að síðar í sumar gætu allt að 200 þúsund ný smit greinst daglega. Nú greinast um 50 þúsund smit daglega. 

Rúmlega 68% fullorðinna Breta eru nú fullbólusettir og spálíkön benda til þess að innlagnir á sjúkrahús, dauðsföll og alvarleg veikindi vegna Covid-19 verði í mun minna mæli en í fyrri bylgjum. 

„Ef við gerum það ekki núna verðum við að spyrja okkur, hvenær munum við þá gera það?“ sagði Johnson í tilefni afléttinganna. 

Smitrakning verður áfram notuð af fullum krafti og þeir sem smitast munu þurfa að fara í einangrun þrátt fyrir afléttingar. Aftur á móti verða ráðleggingar gegn ferðalögum til gulra landa afnumdar. Fullbólusettir Bretar munu því ekki þurfa að fara í sóttkví við heimkonuna frá gulum og appelsínugulum löndum utan Frakklands, Skotlands og Wales vegna útbreiðslu Beta-afbrigðisins. 

Frá 16. ágúst munu þeir sem eiga í samskiptum við smitaða manneskju ekki lengur þurfa að fara í sóttkví. Einangrun smitaðra verður þó enn skylda eftir það tímamark. 

Fjarlægðartakmörk hafa einnig verið afnumin. Viðburðahaldarar og eigendur skemmtistaða eru hvattir til að biðja viðskiptavini og gesti um bólusetningarvottorð, en slíkt er þó ekki skylda. 

Frétt BBC. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert