Biden fundaði með ríkisstjórum vegna elda

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur áhyggjur af skógareldum sem geisa víða …
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur áhyggjur af skógareldum sem geisa víða í vesturhluta Bandaríkjanna. AFP

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ræddi í dag við ríkisstjóra ýmissa ríkja á vesturströnd Bandaríkjanna þar sem gífurlegir skógareldar hafa geisað og lagt heilu samfélögin í rúst undanfarin misseri. Hann ítrekaði í erindi sínu að eldarnir sýni mikilvægi þess að stemma stigu við loftslagsbreytingum.

Á símafundi með ríkisstjórunum lofaði hann þær „hetjur“ sem nú berjast við þá 66 mismunandi skógarelda sem brenna allt sem á vegi þeirra verður á vesturhluta Bandaríkjanna.

„Þeir þurfa á aukinni aðstoð að halda,“ sagði Biden.

Loftslagsbreytingar hafi áhrif

Biden sagði ekki hægt að loka augunum fyrir því hve mikil áhrif aukinn hiti og langir þurrkar hafa í því að mynda kjöraðstæður fyrir skógarelda til þess að kvikna.

„Að skoða þessi mál er nauðsynlegt til þess að geta almennilega tekist á við loftslagsvána,“ sagði Biden einnig.

Biden tók þá fram að frá því hann hélt síðast sambærilegan fund, fyrir mánuði, hafi fjöldi ekra sem eldarnir hafi gleypt tvöfaldast. Nú hafa skógareldar brennt um 3,4 milljónir ekra af landsvæði.

Nokkur þúsund slökkviliðsmenn vinna að því að ráða niðurlögum eldanna, oft í verulega hættulegum aðstæðum. Að minnsta kosti tveir hafa látist við að slökkva eldana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert