Hætta að senda smitaða í einangrun

Aflétt verður í tveimur skrefum, hið fyrra var stigið í …
Aflétt verður í tveimur skrefum, hið fyrra var stigið í gær og hið seinna verður stigið um miðjan ágúst. Ljósmynd/Colourbox

Innan þriggja vikna munu þeir sem smitast af Covid-19 í Alberta-fylki í Kanada ekki þurfa að fara í einangrun. 

Dr. Deena Hinshaw, yfirmaður heilbrigðismála í Alberta, segir að þótt mikið hafi verið um smit síðustu daga og það valdi óróa þá lágmarki hækkandi bólusetningartíðni ógnina af þessum smitum. Bólusetningar dragi úr hættunni á alvarlegum veikindum og þar með álagi á heilbrigðiskerfið.

Stefnan í Alberta er að aflétta öllum takmörkunum um miðjan ágúst og byrja þá að umgangast Covid-19 eins og hverja aðra flensu eða smitsjúkdóm. 

„Þegar við heyrðum fyrst af Covid-19 vissum við lítið sem ekkert um sjúkdóminn, hvernig ætti að meðhöndla hann og vorum ekki með bólusefni. Nú er staðan önnur,“ segir Hinshaw.

Aflétt í tveimur skrefum

Aflétt verður í tveimur skrefum og var fyrra skrefið stigið í gær. Helsta breytingin var að nú þurfa aðeins þeir sem greinast jákvæðir með Covid-19 að fara í einangrun en útsettir einstaklingar verða ekki skikkaðir í sóttkví. 

Rakningarteymi munu ekki fylgja því eftir að láta útsetta vita en ef fólk er með einkenni er því boðið að mæta í sýnatöku. 

Hinn 16. ágúst verður seinna skrefið stigið, að því gefnu að hið fyrra gangi samkvæmt áætlun. Þá verður engin grímuskylda og engin einangrun jafnvel þótt viðkomandi greinist jákvæður. 

Ef fólk finnur fyrir alvarlegum einkennum er því þó ráðlagt að halda sig heima. Ekki verður boðið upp á farsóttarhús eða annars konar stuðning við fólk í einangrun eða sóttkví.

Það verður ekki lengur mælt með því að fólk fari í sýnatöku vegna vægra einkenna en sýnatökur verða aðgengilegar í gegnum heimilislækna.

Í Alberta greindust 194 smit á miðvikudaginn, daginn sem áformin voru tilkynnt. Þá voru 84 á spítala og 18 á gjörgæslu. 64,3% íbúa í fylkinu, 12 ára og eldri, voru þá fullbólusett.

mbl.is