Sektaðir fyrir fölsuð bólusetningarvottorð

Ferðalangarnir framvísuðu fölsuðu bólusetningarvottorði.
Ferðalangarnir framvísuðu fölsuðu bólusetningarvottorði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kanada hefur sektað tvo ferðalanga sem komu frá Bandaríkjunum en að sögn yfirvalda fölsuðu þeir bæði bólusetningarvottorð og neikvætt kórónuveirupróf. Þetta segir á vef BBC.

Hvor ferðalangurinn um sig var sektaður um tæpar tvær milljónir íslenskra króna (16.000 bandaríkjadali) eftir að landamæraverðir á flugvellinum í Toronto komust að því að skjölin sem þeir framvísuðu í gegnum vefsíðuna ArriveCAN voru fölsuð.

„Stjórnvöld í Kanada munu halda áfram að rannsaka önnur atvik sem tilkynnt er um og hika ekki við að grípa til aðgerða þar sem ástæða þykir til, til að vernda Kanadamenn fyrir frekari útbreiðslu Covid-19,“ segir í yfirlýsingu.

Kanadíska heilbrigðisráðuneytið sagði Newsweek að ferðalanganir væru kanadískir ríkisborgar en vildi ekki tjá sig frekar um ferðalangana.

Kanada slakaði á kröfum til ferðalanga í byrjun júlí. Allir sem koma til landsins verða að framvísa vottorði um bólusetningu. Óbólusettir verða að fara í nokkrar sýnatökur og dvelja í þrjá daga á hóteli sem er rekið af ríkisstjórninni áður en þeir fara í sóttkví í 14 daga.

Kanada mun hleypa bólusettum Bandaríkjamönnum inn í landið frá og með 9. ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert