Andrés prins geti hvergi falið sig

Andrés prins getur ekki falið sig, segir lögmaðurinn.
Andrés prins getur ekki falið sig, segir lögmaðurinn. AFP

Andrés Bretaprins getur ekki falið sig á bak við ríkidæmi sitt og völd, segir David Boies, lögmaður Virginiu Giuffre, konunnar sem hefur kært Andrés fyrir að hafa misnotað hana kynferðislega þegar hún var ólögráða. 

Boies segir að Giuffre hafi reynt allt hvað hún gat til þess að fá lausn á sínu máli eftir að hún ásakaði Andrés um að hafa haft við sig kynferðismök þegar hún var sautján ára, vitandi að hún væri ekki samþykk því. Hún segir Andrés hafa misnotað hana í þrígang. 

Virginia Giuffre.
Virginia Giuffre. Skjáskot/NBC

Krefst skaðabóta

Boies ráðleggur Andrés, í samtali við BBC, frá því að hunsa dómsmál.

„Ef hann gerir það þá fellur vanefndardómur gegn honum sem verður ekki einungis framfylgt í Bandaríkjunum heldur nánast öllum siðmenntuðum ríkjum heims.“

Þá bætir Boies því við að Guiffre vilji senda ríkum og valdamiklum karlmönnum skilaboð um að hegðun eins og Andrés sýndi sé „ekki ásættanleg“ og að það sé ekki mögulegt fyrir menn sem sýna slíka hegðun að fela sig á bak við „ríkidæmi, völd og hallarveggi.“ Þá segir hann skjólstæðing sinn vona að aðgerðir hennar minnki líkurnar á að ungar stelpur lendi í því sama og hún. 

Guiffre krefst skaðabóta vegna meintra brota, sem og fjárhæðar sem hún vill að renni beint í samtök sem hjálpa þolendum kynferðisofbeldis.

mbl.is