Búast við mótmælum og ofbeldi á morgun

Lögreglumenn fyrir utan þinghúsið í Washington D.C. Myndin var tekin …
Lögreglumenn fyrir utan þinghúsið í Washington D.C. Myndin var tekin í gær á meðan skipulagningu viðbragðsaðila stóð. Búist er við að hundruð mótmælenda leggi leið sína að þinghúsinu á morgun. AFP

Mikill viðbúnaður er í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, þar sem stuðningsmenn Donald Trump, fyrrverandi forseta landsins, hyggjast koma saman til samstöðufundar á morgun til stuðnings þeirra sem réðust inn í bandaríska þinghúsið 6. janúar síðastliðinn.

Rammgerð girðing, sem stóð í kringum þinghúsið í hálft ár eftir innrásina, var sett upp að nýju í dag auk öryggismyndavéla. Lögregluyfirvöld í borginni segjast þó ekki gruna að nein sérstök atlaga verði gerð að þinghúsinu, né heldur lögreglumönnum eða öðrum viðstöddum.

Mótmælendur í sölum þinghússins 6. janúar síðastliðinn.
Mótmælendur í sölum þinghússins 6. janúar síðastliðinn. AFP

Búast við slagsmálum

Innanríkisráðuneytið bandaríska hefur þó varað við því að mögulega geti brotist út slagsmál meðal fundargesta, og er vísað til leynilegra skjala í því sambandi um að sams konar fundur verði haldinn í grennd við þinghúsið, þar sem árásinni á þinghúsið í janúar verður mótmælt. Varar ráðuneytið við því að upp úr geti soðið á milli hópanna tveggja.

Búist er við að um 700 manns leggi leið sína að þinghúsinu til að vera viðstaddir samstöðufund stuðningsmanna Trump.

Þingmenn Bandaríkjaþings verða ekki inni í þinghúsinu, ólíkt því sem var 6. janúar, vegna sumarleyfa sem standa enn yfir.

Fólk mæti ekki með Trump-varning

Skipuleggjandi samstöðufundarins, Look Ahead America, segir í yfirlýsingu að fólk sé beðið um að forðast ofbeldi. Fundinum sé ætlað að styðja þá sem tóku þátt í innrásinni í þinghúsið án þess þó að hafa framið ofbeldisglæpi.

Samtökin biðla til fólks að sýna laganna vörðum virðingu og sleppa því að koma með Trump-fána, Trump-borða eða annan slíkan varning.

Slagorðið Make America Great Again verður líklega eitt það allra …
Slagorðið Make America Great Again verður líklega eitt það allra minnistæðasta við forsetatíð Donald Trump. Skipuleggjendur mótmælanna á morgun biðla til fólks að mæta ekki með slíkan varning. AFP

Ríflega 600 manns hlutu ákæru í kjölfar innrásarinnar í janúar, þar af hafa tugir lýst yfir sekt sinni. Flestir eru aðeins ákærðir fyrir minniháttar brot, en flestir þeir sem játað hafa ofbeldisglæpi eiga þunga dóma yfir höfði sér.

Alls létust fimm manns í aðdraganda árásanna, á meðan þeim stóð eða stuttu eftir. Ein kona var skotin til bana af lögreglu. Alls um 138 lögreglumenn særðust í innrásinni og fjórir lögreglumenn, sem voru á vettvangi þennan dag, féllu fyrir eigin hendi á innan við sjö mánuðum frá innrásinni.

mbl.is