Lést á sjúkrahúsinu

Grete Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, greinir frá …
Grete Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, greinir frá andláti fórnarlambsins á blaðamannafundi í gær. Skjáskot/TV2

Tvítugi maðurinn, sem var skotinn á lóð Lofsrud-skólans í Mortensrud í Ósló á fimmtudagskvöldið, lést síðdegis í gær af sárum sínum en ástand hans hafði verið mjög tvísýnt síðan atlagan var gerð að honum á ellefta tímanum þá um kvöldið.

„Rannsóknin heldur nú áfram af fullum krafti og er nú orðin manndrápsrannsókn,“ sagði Grete Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, við fjölmiðla í gær, en meðal þess sem lögregla rannsakar nú er hvort árásin hafi tengst uppgjöri glæpagengja í borginni.

Eins og greint var frá í fréttum í gær batt lögregla nokkrar vonir við að upptökur úr öryggismyndavélum skólans gætu veitt vísbendingar um árásarmanninn eða -mennina en þær vonir urðu að engu þegar í ljós kom að myndavélarnar voru mölbrotnar og handónýtar.

Tildrög þess eru að í apríl í fyrra var skotið á bifreið við skólann og tókst lögreglu að leysa það mál með upptökum úr myndavélunum. Í kjölfarið voru skemmdarverkin unnin á þeim. „Við vorum með sex eða átta myndavélar á veggjunum hérna. Við kærðum þetta, en aldrei gerðist neitt í því máli,“ sagði Trond Nilsen, skólastjóri Lofsrud-skólans, í samtali við norska dagblaðið VG í gær.

Nemendur sváfu í næsta skóla

Kvað skólastjóri málið dapurlegt fyrir Mortensrud-hverfið og skólann, að ógleymdum aðilum málsins. Skammt frá er barnaskólinn Mortensrud-skóli þar sem fjöldi barna gisti yfir nótt, en nú er haustfrí í norskum skólum og boðið upp á ýmsa dægradvöl fyrir þau börn sem ekki fara í ferðalög með fjölskyldum sínum í fríinu.

„Nemendurnir sem voru í skólanum voru farnir að sofa þegar þetta gerðist og urðu einskis varir,“ sagði skólastjórinn þar, Trond Herbert Johansen.

Lögregla hefur þegar þetta er skrifað ekki handtekið neinn vegna málsins, en óskar eftir ábendingum frá almenningi.

NRK

VG

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert