Börn í námunda við skotárás

Lofsrud-skólinn í Mortensrud í Ósló þar sem tvítugur maður var …
Lofsrud-skólinn í Mortensrud í Ósló þar sem tvítugur maður var skotinn í gærkvöldi á meðan börn voru viðstödd á skólalóðinni. Lögregla leitar nú skotmannsins með öllum viðbúnaði en fórnarlambið liggur mjög þungt haldið á sjúkrahúsi. Ljósmynd/Wikipedia.org/Kimsaka

Lögreglan í Ósló leitar nú árásarmanns eða -manna í kjölfar skotárásar við Lofsrud-grunnskólann í Mortensrud í gærkvöldi þar sem tvítugur maður var fórnarlambið og liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi. Er þar um að ræða fimmtu skotárásina í borginni á sjö vikum en alls hafa sjö manns orðið fyrir skotum í árásunum.

„Það er á hreinu að við lítum þetta mjög alvarlegum augum,“ segir Grete Lien Metlid, deildarstjóri rannsóknardeildar lögreglunnar í Ósló, við norska dagblaðið VG, „það þarf þó ekki að tákna að [skotárásum] fjölgi þótt upp komi nokkur tilvik á stuttu tímabili,“ segir Metlid enn fremur, en í samtali við norska ríkisútvarpið NRK kveður hún ástand þess sem skotinn var í gær mjög alvarlegt og lögreglan bíði nýjustu frétta frá sjúkrahúsinu þar sem allt hefur verið gert til að bjarga lífi hans.

Haustfrí og margir á ferli

Lögregla fór með miklum viðbúnaði að Lofsrud-skólanum upp úr klukkan 22 í gærkvöldi að norskum tíma þegar tilkynnt var um mann sem hefði verið skotinn þar. Segir Metlid að margir hafi verið á ferð við skólann þegar árásin var gerð, þar á meðal börn, en skólinn var opinn nemendum frá klukkan 16 til 21 í gær vegna félagsstarfs.

„Ástandið er mjög alvarlegt þegar skotum er hleypt af á almannafæri, á svæði þar sem margt ungt fólk er á ferli,“ segir Metlid, en haustfrí er í norskum skólum þessa viku og því margir á ferli úti við. Lögreglan hélt blaðamannafund í morgun þar sem fram kom að allur tiltækur mannskapur leitaði nú skotmannsins, hvort tveggja úr þyrlu og á jörðu niðri með leitarhundum, en sú leit hefur enn sem komið er ekki borið árangur.

Vitni, sem var á ferð í Mortensrud í gærkvöldi, kveðst í samtali við NRK hafa heyrt sex skothvelli en lögregla vill ekki staðfesta hve mörgum skotum var hleypt af á vettvangi. Að sögn Erling Olstad, sem stjórnaði aðgerðum lögreglu við skólann í gærkvöldi, kannar lögregla nú hvort öryggismyndavélar skólans hafi fangað árásina á upptöku en auk þess óskar lögregla eftir ábendingum um atburðinn frá almenningi.

NRK

VG

Aftenposten

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert