Pelsarnir reyndust óekta

Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump fyrrverandi forseti Bandaríkjanna. AFP

Í sinni fyrstu utanlandsferð sem forseti Bandaríkjanna fékk Donald J. Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, ríkulegar gjafir frá konungsfjölskyldunni í Sádí-Arabíu. Á meðal gjafanna voru pelsar gerðir úr feldi hvítra tígrisdýra og rýtingur með handfangi sem virtist vera úr fílabeini.

Lögmaður Hvíta hússins komst að þeirri niðurstöðu að varsla á pelsunum og rýtingnum bryti líklega í bága við lög um dýrategundir í útrýmingarhættu í Bandaríkjunum. Stjórn Trump hélt þó gjöfunum og ákvað að tilkynna ekki um munina sem gjafir frá erlendum stjórnvöldum, líkt og krafa er um.

Afhentu rangri stofnun gjafirnar

Á síðasta vinnudegi Trumps í embætti afhenti Hvíta húsið loks gjafirnar til stjórnsýslustofnunarinnar GSA, en átti að afhenda þær til bandaríska fiska- og dýraeftirlitsins, sem gerði munina upptæka í sumar. 

Þá kom loks í ljós að hinar ríkulegu gjafir konungsfjölskyldunnar hefðu í raun ekki gerðar úr feldi hvítra tígrisdýra eða fílabeinum, heldur voru þær gervi.

„Dýraeftirlitsmenn og rannsóknarlögreglumenn komust að þeirri niðurstöðu að efni skikkjanna væri litað til að líkja eftir tígrisdýrum og blettatígamynstri og tilheyrðu ekki vernduðum dýrategundum,“ sagði Tyler Cherry, talsmaður innanríkisráðuneytisins, sem hefur yfirumsjón með bandaríska fiska- og dýraeftirlitinu.

Embættismenn í sendiráði Sádi-Arabíu í Washington neituðu að tjá sig við fréttastofu NY Times, sem greinir frá.

mbl.is