Forsetinn verði dæmdur fyrir fjöldamorð

Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu.
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu. AFP

Brasilísk þingnefnd mælir með því að forseti landsins, Jair Bolsonaro, verði ákærður fyrir fjöldamorð. Nefndin fullyrðir að hann hafi viljandi leyft Covid-19 faraldrinum að drepa hundruð þúsunda íbúa landsins með misheppnaðri tilraun til að ná hjarðónæmi og þannig endurreisa efnahagslífið.

Skýrsla nefndarinnar mun birtast í vikunni en dagblaðið New York Times fékk aðgang að henni fyrr.

Vilja forsetann í fangelsi

Skýrslan, sem er 1.200 blaðsíður, kennir stefnu Bolsonaro gegn Covid-19 um dauða 300.000 Brasilíumanna, sem eru um helmingur dauðsfalla í Brasilíu vegna sjúkdómsins. Þá hvetur nefndin brasilísk yfirvöld til að fangelsa forsetann.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að hún mæli einnig með að ákæra verði gefin út gegn öðrum 69 aðilum, þar á meðal gegn þremur sonum forsetans sem og gegn fjölmörgum núverandi og fyrrverandi embættismönnum. 

„Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir mörg þessara dauðsfalla. Ég er persónulega sannfærður um að hann beri ábyrgð á stigmögnun slátrunarinnar,“ sagði Renan Calheiros, brasilískur öldungadeildarþingmaður og aðalhöfundur skýrslunnar, í viðtali í gær.

Saka forsetann um þjóðarmorð

Í skýrslunni er Bolsonaro einnig sakaður um þjóðarmorð á frumbyggjum í Amazon-regnskóginum en farsóttin þurrkaði út íbúa þar eftir að súrefniskútar kláruðust á spítölum.

Sömuleiðis er forsetinn sakaður um að hafa þrýst á að notuð væru lyf við meðferð gegn Covid-19, eins og hýdroxýklórókíni, sem búið var að sanna að væru árangurslaus gegn veirunni.

Þá er ríkisstjórn hans einnig sökuð um að hafa tafið dreifingu bóluefna í Brasilíu með því að svara ekki yfir hundrað tölvupóstum frá bóluefnaframleiðandanum Pfizer. Í staðinn hafi ríkisstjórnin ætlað að kaupa ósamþykkt bóluefni frá Indlandi á háu verði en síðar hafi verið hætt við samninginn vegna gruns um mútur.

Knúið fram af pólitískum hvötum

Óvíst er hvort að skýrsla nefndarinnar muni leiða til forsetann til sakargifta í ljósi pólitísks raunveruleika landsins. Af þeim ellefu nefndarmönnum sem eiga sæti í nefndinni eru sjö andstæðingar Bolsonaro.

Forsetinn hefur gagnrýnt rannsókn öldungadeildarinnar og segir hana knúna fram af pólitískum hvötum.

mbl.is