Breska Amazon hættir að taka við Visa-kreditkortum

Margir Íslendingar nota Amazon í Bretlandi til þess að kaupa …
Margir Íslendingar nota Amazon í Bretlandi til þess að kaupa á netinu. AFP

Smásölurisinn Amazon greindi frá því í dag að fyrirtækið myndi hætta að taka við greiðslum frá Visa-kreditkortum útgefnum í Bretlandi frá og með 19. janúar. Viðskiptavinir munu áfram geta greitt með debetkortum frá Visa.

Segja að gjöldin frekar eiga að lækka en hækka

Amazon segir ákvörðunina tilkomna vegna hækkandi færslugjalda á kreditkortum Visa á sama tíma og tækniframfærir ættu að vera að lækka kostnaðarliði og færslugjöld.

Talsmenn kortafyrirtækisins segja það „mikil vonbrigði að Amazon sé að hóta því að takmarka valfrelsi viðskiptavina í framtíðinni“.

Tengist Brexit ekki neitt

Talsmaður Amazon segir félagið í viðræðum við Visa til þess að leysa deiluna þar sem allir tapi ef valfrelsi viðskiptavinanna sé takmarkað. Fyrirtækin tvö hafi átt í góðu samstarfi um margra ára skeið og binda vonir við að viðskiptavinir geti áfram verslað við Amazon í Bretlandi með Visa-kreditkortum. 

Í frétt BBC um málið segir að bæði félögin neiti því að ágreiningurinn hafi nokkuð með Brexit að gera heldur snúist þetta eingöngu um þau færslugjöld sem Visa leggi á greiðslur til Amazon í Bretlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert