Telja sig hafa fundið orsök sjaldgæfra blóðtappa

AFP

Teymi vísindamanna frá Bretlandi og Bandaríkjunum telur sig hafa fundið kveikjuna sem leiddi af sér afar sjaldgæfa blóðtappa í kjölfar bólusetningar með bóluefni AstraZeneca gegn Covid-19. 

Niðurstöður rannsókna teymisins hafa sýnt með nákvæmum hætti hvernig prótein í blóði laðast að mikilvægum hluta bóluefnisins. Vísindamennirnir telja að það hafi keðjuverkandi áhrif í för með sér sem geta valdið blóðtöppum. 

Talið er að bóluefni AstraZeneca hafi nú þegar bjargað milljónum manna frá dauða vegna Covid-19. Samt sem áður hafa áhyggjur af afar sjaldgæfum blóðtöppum haft áhrif á það hvernig bóluefnið hefur verið notað á heimsvísu. Takmörk voru til að mynda sett á notkun bóluefnisins hér á landi.

Talskona AstraZeneca tók það fram í samtali við BBC að líklegra væri að fólk fengi blóðtappa ef það smitaðist af kórónuveirunni en vegna bólusetningar með bóluefni AstraZeneca. Þá væri enn ekki alveg ljóst hvers vegna blóðtapparnir hefðu myndast hjá einstaka fólki sem bólusett hefði verið með efninu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert