Jarðarför Desmonds Tutus fór fram í morgun

Fjölskylda Tutu bera kistuna úr kirkjunni.
Fjölskylda Tutu bera kistuna úr kirkjunni. AFP

Útför Desmonds Tutus, erkibiskups í Suður-Afríku, fór fram nú í morgun í Höfðaborg þar ytra. Nóbelsverðlaunahafinn fyrrverandi lést níræður að aldri síðastliðinn sunnudag. Þjóðin syrgir þennan mikilsverða mannréttindabaráttumann en þúsundir hafa vottað Tutu virðingu sína í St. George-dómkirkjunni í Höfðaborg.

Tutu var ötull baráttumaður mannréttinda í heimalandi sínu og var í framvarðarsveitinni sem barðist gegn aðskilnaðarstefnu stjórnvalda í Suður-Afríku sem mismunaði fólki eftir kynþætti þess. Stefnan var við lýði í landinu frá árinu 1948 til ársins 1991.

Hófsöm athöfn að beiðni Tutus

Vegna samkomutakmarkana og skæðrar útbreiðslu ómíkron-afbrigðisins voru einungis 100 manns viðstaddir útförina sjálfa en forseti landsins, Cyril Ramaphosa, flutti minningarræðu til heiðurs erkibiskupnum.

Tutu hafði skilið eftir skýr fyrirmæli þess efnis að ekki skyldi eyða um of í útförina sjálfa og bað hann um að líkkistan yrði eins ódýr og kostur væri á. Þá bað hann einnig um að einu blómin í útförinni yrðu nellikuvöndur frá fjölskyldu hans.

Jarðneskar leifar Tutus verða svo lagðar í gröf bak við ræðustól St. George-dómkirkjunnar þar sem Tutu starfaði sem erkibiskup í 35 ár.

Reykelsi sveiflað.
Reykelsi sveiflað. AFP
Kistan borin á brott.
Kistan borin á brott. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert