Tongverjar flýja flóðbylgju

„Maður heyrði óp allstaðar, fólk að kalla á aðra að …
„Maður heyrði óp allstaðar, fólk að kalla á aðra að leita skjóls,“ sagði Mere Taufa, íbúi landsins. Skjáskot/Twitter

Tongverjar flýja nú í ofvæni til efri byggða landsins vegna flóða sem myndast hafa í kjölfar neðansjávareldgoss í grennd við eyjuna.

Eldgosið er það nýjasta í röð eldgosa sem orðið hafa undanfarið í eldfjallinu Hunga Tonga-Hunga Ha'apai.

„Maður heyrði óp allstaðar, fólk að kalla á aðra að leita skjóls,“ sagði Mere Taufa, íbúi landsins, í samtali við Stuff-fréttastofuna á Nýja-Sjálandi.

Hún hafi fundið jörðina skjálfa þegar gosið varð og heimili hennar verið á floti nokkrum mínútum síðar.

„Litli bróðir minn hélt að það væri sprengjuárás.“

Tupou hinn sjötti, konungur landsins, er sagður hafa verið færður í skjól úr konungshöllinni í höfuðborginni Nuku'alofa og færður í annað húsnæði í efri byggðum langt frá ströndinni.

Almennir borgarar búsettir nær ströndinni flýja nú flóðbylgjuna, sem er sögð rúmur metri að hæð.

Myndskeið frá samfélagsmiðlum sýnir fólk keyra frá flóðinu:

Myrkrið tók yfir eftir að aska frá gosinu huldi sólina algjörlega:

mbl.is