Lést við að bjarga hundunum sínum á Tonga

Angela Glover er fyrsta staðfesta dauðsfallið á Tonga.
Angela Glover er fyrsta staðfesta dauðsfallið á Tonga. Ljósmynd/BBC

Bresk kona fannst látin á eyjunni Tonga í dag eftir að hafa orðið fyrir flóðbylgju. Um er að ræða fyrsta staðfesta dauðsfalli af völdum Hunga Tonga–Hunga Haʻapai eldgossins sem er eitt kraft­mesta eld­gos sem orðið hef­ur í seinni tíð.

Á vef BBC er greint frá því að Angela Glover lést er hún var að reyna að bjarga hundunum sínum.

Eldgosið hófst á laugardag neðansjávar og olli gríðarstórum flóðbylgjum. Fjarskiptainnviðir hafa skemmst sem veldur því að erfitt er að segja til um umfang eyðileggingar af völdum gossins.

Gosið er um 65 kílómetra norður af höfuðborg Tonga, Nuku'alofa, þar sem Angela bjó ásamt eiginmanni sínum James, en hann fann lík Angelu.

„Angela og James elskuðu líf sitt á Tonga og dýrkuðu Tongverja. Þau elskuðu sérstaklega ást Tongverja á fjölskyldunni og menninguna,“ sagði Nick Eleini, bróðir Angelu, í yfirlýsingu. 

James rekur húðflúrstofu í höfuðborginni og Angela hafði stofnað dýraverndunarsamtök.

Eleini sagði Angelu hafa mikla ást á hundum. Samtökin hennar sjá um að fanga flækingshunda og finna nýtt heimili fyrir þá. „Því ljótari sem hundurinn var, því meira elskaði hún hann. Hún elskaði þá alla, hún tileinkað líf sitt hundum,“ sagði Eleini.

Rauði krossinn áætlar að flóðbylgjurnar hafi haft áhrif á um 80 þúsund manns. Þá hefur ryk frá eldgosinu mengað vatnsveitur Tongverja. 

Hunga Tonga–Hunga Haʻapai eldgosið.
Hunga Tonga–Hunga Haʻapai eldgosið. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert