Hvað gerðist í Kyrrahafinu í gær?

Gervihnattamynd af sprengingunni við eldstöðvarnar Hunga Tonga-Hunga Ha'apai.
Gervihnattamynd af sprengingunni við eldstöðvarnar Hunga Tonga-Hunga Ha'apai.

Talið er að sprengingin sem varð í gosinu Hunga Tonga–Hunga Haʻapai í Kyrrahafinu í gær sé ein sú stærsta í seinni tíð og segja náttúruvársérfræðingar gosið svipa til hins fræga Krakatoa-atburðar frá 1883, einu kraftmesta og mannskæðasta gosi sögunnar þar sem rúmlega 36 þúsund manns lágu í valnum.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur við Jarðvísindastofnun og prófessor emerítus við Háskóla Íslands, segir í samtali við mbl.is að líklegasta skýring þeirrar stóru sprengingar sem varð í gærmorgun sé hrun í gosið sem nú gýs á hafsbotni.

„Þetta er nú ekki ósvipað Krakatoa-atburðinum. Þetta er eldgos á …
„Þetta er nú ekki ósvipað Krakatoa-atburðinum. Þetta er eldgos á hafsbotni og það er askja í því,“ segir Páll. Teikning af Krakatoa-gosinu. Ljósmynd/Wikipedia.org

„Þetta er nú ekki ósvipað Krakatoa-atburðinum. Þetta er eldgos á hafsbotni og það er askja í því,“ segir hann og útskýrir að oftar en ekki hrynji öskju- eða gígbarmur eldgoss á hafsbotni með þeim afleiðingum líkt og sáust í gær.

Þó sé um að ræða flókna atburðarás og enn séu ekki öll kurl komin til grafar.

„Það á nú eftir að púsla þessu saman. Þetta er úti í hafsauga þannig það er nú erfitt að fylgjast með.“

Eyjur urðu að einni sem sprakk síðan

„Þetta er nú hálfgert Surtseyjargos að því leyti að það er neðansjávar og eyja hefur myndast,“ segir Páll.

Umrædd eyja myndaðist milli tveggja sem fyrir voru, tengdi þær saman og myndaði staka eyju í stað klasa.

„Þá kemur þetta langa og vandræðalega nafn,“ segir hann og á þar við nafnið „Hunga Tonga–Hunga Haʻapai“, en þar er nöfnum eyjanna tveggja skeytt saman í eitt.

Hin nýskapaða eyja lifði þó ekki lengi. „Við sprenginguna þá klofnaði hún nú aftur í sundur þannig það á nú eftir að koma í ljós hvaða nafn verður ofan á,“ segir Páll og hlær.

Tveir hringir í kring um jörðina

Við sprenginguna í gær skullu flóðbylgjur á höfuðborg Tonga, sem er aðeins nokkrum tugum kílómetra frá eldstöðinni. Þar að auki vöruðu Bandaríkin og Japan við flóðbylgjuhættu.    

Hljóðbylgjur frá sprengingunni bárust til Íslands tvisvar, um klukkan 19 í gærkvöldi annars vegar og um klukkan fimm í nótt hins vegar, að sögn Veðurstofu Íslands.

Bylgjurnar eru því búnar að ferðast hringinn í kring um hnöttinn í tvígang en það gerðist sjö sinnum í Krakatoa-atburðinum. Ekki er útilokað að bylgjurnar fari annan hring.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus.
Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur og prófessor emerítus. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég held það séu nú hálf-örugglega ekki mörg gos sem hafa gert svona stórar þrýstibylgjur. Þetta á örugglega eftir að koma í ljós við nánari rannsóknir á þessu, hversu víðtæk [bylgjan] er,“ segir Páll spurður hvort um sé að ræða sögulega stórt gos.

Bylgjan sé sér í lagi áhugaverð þar sem hún sást bersýnilega á gervitunglamyndum og hvernig hún breiddist út frá gosinu. Gosmökkurinn skaust upp í loftið og sprengisveppur myndaðist yfir gosinu, eins og eftir kjarnorkusprengingu, enda svipað sem gerist í lofthjúpnum.

„Gosið er í gangi áfram, þetta er bara ein sprenging í langri atburðarás sem byrjaði í desember og er búin að vera að malla þarna allan þennan tíma,“ segir Páll og bætir við að líklega muni það standa yfir í þó nokkurn tíma í viðbót.

Sjá má sprenginguna í myndskeiði hér:

mbl.is

Bloggað um fréttina