Fjármögnun BBC breytt

Höfuðstöðvar Breska ríkisútvarpsins eru í þessari byggingu í London.
Höfuðstöðvar Breska ríkisútvarpsins eru í þessari byggingu í London. Ljósmynd/BBC

Menningarmálaráðherra Breta, Nadine Dorries, boðaði á sunnudaginn róttækar breytingar á fjármögnun Breska ríkisútvarpsins, BBC. Sagði hún í færslu sem hún birti á Twitter að næsta tilkynning um upphæð hinna lögskipuðu föstu afnotagjalda, sem sérhver Breti þarf að greiða, yrði hin síðasta. Eftir fimm ár yrði enginn neyddur til að greiða afnotagjald til stofnunarinnar.

„Þeir dagar eru á enda að eldri borgurum sé hótað með fangelsisvist og heimsóknum fulltrúa sýslumanna,“ sagði hún og vísaði til þess að það er saknæmt að greiða ekki afnotagjaldið óháð því hverjar tekjur fólks eru. Hafa margir aldraðir kvartað yfir þessu.

„Tími er nú til þess kominn að ræða nýjar leiðir til að fjármagna, styrkja og selja breskt gæðaefni,“ sagði ráðherrann enn fremur.

Á vef BBC segir að samkvæmt óstaðfestum heimildum ætli ríkisstjórnin sér að frysta núverandi afnotagjald sem er 159 sterlingspund á ári, um 28 þúsund íslenskar krónur, til tveggja ára. Það verði síðan hækkað nokkuð til næstu þriggja ára þar á eftir og árið 2027 taki við nýtt kerfi.

Í frétt BBC segir að þetta sé ekki í fyrsta sinn sem uppi séu hugmyndir hjá stjórnvöldum um róttækar breytingar á fjármögnun ríkisútvarpsins. Ekkert hafi þó enn orðið úr slíkum áformum.

Samkvæmt samningi ríkisins og BBC sem gildir til 2027 skal reksturinn tryggður með afnotagjöldum sem allir landsmenn greiða árlega. Samningurinn kveður einnig á um hlutverk og verkefni ríkisútvarpsins. Það er svo ríkisstjórnin sem ákveður innan ramma samningsins árlega upphæð afnotagjaldanna. Árið 2016 tilkynnti ríkisstjórnin að þau myndu frá vori 2017 til vors 2022 fylgja verðalagsþróun í landinu.

Afnotagjöldin eru grundvöllur alls rekstrar BBC, viðamikillar dagskrárgerðar fyrir útvarp og sjónvarp, vefsíðu, hlaðvarpa og margvíslegrar annarrar þjónustu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert