Fimm manns skotnir til bana

Artemy Ryabchuk var handtekinn skömmu eftir árásina.
Artemy Ryabchuk var handtekinn skömmu eftir árásina. AFP

Þjóðvarðliði í Úkraínu skaut fimm manns til bana í borginni Dnipro í austurhluta landsins í dag. Fimm til viðbótar slösuðust í árásinni. 

Fram kemur á BBC að maðurinn hafi hafið skothríð þegar vörðum var úthlutað vopn á geimtæknistöðinni Pivdenmash snemma í morgun. 

Þjóðvarðliðinn sem um ræðir, Artemiy Rayabchuk, er 21 árs gamall. Hann flúði vettvang, vopnaður Kalashnikov-hríðskotabyssu og var síðar handtekinn af lögreglu. Samkvæmt úkraínska innanríkisráðuneytinu liggur ekki fyrir hvað bjó að baki árásinni, en Rayabchuk lýsti því pollrólegur fyrir lögreglu hvernig hann aðhófst. 

Mykola Balan, herforingi úkraínska þjóðvarðliðsins, sagði af sér í kjölfar árásarinnar. Balan sagði að yfirmenn beri á endanum ábyrgð á „hvers konar atvikum, bæði góðum og slæmum“.

Volodymyr Zelenskiy, forseti Úkraínu, hefur kallað eftir því að málið verið rannsakað. 

Fjórir hinna látnu voru þjóðvarliðar, allir karlmenn. Fimmta fórnarlambið var kona sem vann fyrir öryggisfyrirtæki á svæðinu. Rayabchuk á að hafa skotið konuna í höfuðið þegar hún neitaði að hleypa honum út úr byggingunni. 

Viðbúið er að fjöldi látinna eigi eftir að hækka, þar sem a.m.k. einn er lífshættulega slasaður. 

Artemy Ryabchuk.
Artemy Ryabchuk. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert