Telja Rússa leita að átyllu til innrásar

Úkraínskur landamæravörður horfir yfir til Rússlands.
Úkraínskur landamæravörður horfir yfir til Rússlands. AFP

Stjórnvöld Úkraínu og aðskilnaðarsinnar studdir af Rússum deila um hvor ber ábyrgð á skotum og sprengingum í austurhluta Úkraínu í morgun. Atburðirnir eiga sér stað á sama tíma og Bandaríkin hafa talið Rússa leita að átyllu til innrásar í Úkraínu.

Átök hafa staðið yfir í austurhluta Úkraínu með hléum frá því Rússar innlimuðu Krímskaga árið 2014 en átök morgunsins benda til þess að auknar líkur séu á innrás Rússa.

Úkraínumenn segja að hersveitir studdar af Rússum hafi skotið að leikskóla í þorpinu Stanytsia-Luganska og að tveir óbreyttir borgarar séu særðir.

Úkraínskur hermaður kveikir í sígarettu.
Úkraínskur hermaður kveikir í sígarettu. AFP

Þorpið illa úti

Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagði að þorpið hefði orðið illa úti eftir sprengingar en minntist ekkert á meiðsl eða mannfall. Hann fordæmdi árásirnar og hvatti aðrar þjóðir til að gera slíkt hið sama.

Kuleba benti á að sprengingarnar væru brot á Minsk-sátt­mál­an­um og vísar þá til sam­komu­lags sem náðist árið 2014 og átti að binda enda á átök í Úkraínu.

Rússneskar fréttaveitur greindu hins vegar frá því að hersveitir hliðhollar þeim sökuðu Úkraínuher um að auka spennuna á svæðinu og að þarlendar hersveitir stæðu fyrir þeim.

Dimitrí Peskov, talsmaður Vla­dimírs Pútíns, for­seta Rúss­lands, sagðist hafa áhyggjur af ástandinu og hvatti vestræn ríki til að vara stjórnvöld í Kænugarði við frekari árásum.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert