Evrópusambandið hafi ekki gengið nægilega langt

Úkraínskur hermaður fyrir framan mikið skemmda íbúðabyggingu í úthverfi Kænugarðs.
Úkraínskur hermaður fyrir framan mikið skemmda íbúðabyggingu í úthverfi Kænugarðs. AFP

Volodimír Zelenskí, forseti Úkraínu, hvatti Evrópusambandið í dag til þess að grípa til harðari refsiaðgerða gagnvart Rússlandi vegna innrásar landsins í Úkraínu. 

„Evrópusambandið hefur ekki notað alla þá möguleika sem eru til staðar hvað varðar refsiaðgerðir. Þrýstingurinn á Rússland verður að aukast,“ skrifaði Zelenskí á Twitter eftir að hann ræddi við Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins í morgun. 

Leiðtogar innan Evrópusambandsins hafa samþykkt refsiaðgerðir sem þeir segja að muni hafa „miklar og alvarlegar afleiðingar“ fyrir Rússland. 

Leiðtogarnir ákváðu þó ekki að svipta Rússa Swift-bankakerfinu. Voru Þjóðverjar sérstaklega andsnúnir því að slíkt skref yrði tekið. 

Beinast að bankakerfinu og ríkisreknum fyrirtækjum

Evrópusambandið og aðrir þjóðarleiðtogar Vesturlanda hafa sagt að mögulegt sé að gripið verði til frekari aðgerða. 

Þær aðgerðir sem þegar hafa verið samþykktar verða kynntar síðar í dag. Þær snerta fjármálakerfi Rússlands, orku- og samgöngugeira landsins, útflutning og fleira. 

Von der Leyen sagði að aðgerðirnar beinist að 70 prósentum rússneska bankakerfinu en einnig ríkisreknum fyrirtækjum, til dæmis fyrirtækjum í varnarmálageiranum. Von der Leyen sagði að aðgerðirnar muni auka við lánakostnað Rússlands, hækka verðbólgu og hafa slæm áhrif á rússneskan iðnað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert