Blað rússnesks nóbelsverðlaunahafa gerir útgáfuhlé

Ritstjóri Novaya Gazeta, Dmitrí Muratov, fyrir utan húsnæði blaðsins í …
Ritstjóri Novaya Gazeta, Dmitrí Muratov, fyrir utan húsnæði blaðsins í október síðastliðnum. AFP

Helsta óháða blað Rússlands, Novaya Gazeta, hefur hætt útgáfustarfsemi þangað til hernaðaraðgerðum Rússa í Úkraínu lýkur.

Ritstjóri dagblaðsins, Dmitrí Muratov, hlaut friðarverðlaun Nóbels í fyrra. Hann sagði þetta erfiða ákvörðun og gaf til kynna að hún væri tekin til þess að bjarga þessu virta blaði frá því að hætta fyrir fullt og allt.

„Ég veit að hvað okkur varðar og ykkur þá er þetta hræðileg og erfið ákvörðun. En við verðum að bjarga okkur í þágu okkar allra,“ sagði Muratov í yfirlýsingu.

Skrifstofur Novaya Gazeta.
Skrifstofur Novaya Gazeta. AFP

Fyrrverandi leiðtogi Sovétríkjanna, Mikhaíl Gorbatsjov, tók þátt í stofnun blaðsins árið 1993. Novaya Gazeta er eina stóra blaðið sem enn starfar í Rússlandi sem hefur gagnrýnt Vladimír Pútín Rússlandsforseta og gjörðir hans bæði innanlands og utan.

Tilkynningin kom rúmum mánuði eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Þúsundir hafa látið lífið og yfir 10 milljónir manna hafa þurft að yfirgefa heimili sín. Flóttamannakrísan er sú versta í Evrópu síðan í seinni heimsstyrjöldinni.

„Við höfum fengið aðra aðvörun frá Roskomnadzor,“ sagði dagblaðið í yfirlýsingunni og átti þar við stofnunina sem hefur eftirlit með fjölmiðlum.

„Við ætlum að hætta útgáfu blaðsins á vefsíðu okkar, á samfélagsmiðlum og í prenti – þangað til „sérstöku aðgerðunum í Úkraínu“ linnir,“ sagði þar einnig.

Húsnæði blaðsins.
Húsnæði blaðsins. AFP

Fyrr í dag fékk ritstjórn Novaya Gazeta senda formlega aðvörun frá Roskomnadzor í annað sinn frá því í síðustu viku.

Ef fjölmiðill fær tvær aðvaranir í landinu á einu ári getur dómstóll látið loka honum.

„Ef við hættum útgáfunni ekki missum við starfsleyfið okkar í dómssal,“ sagði talsmaður blaðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert