Íhuga að senda bandaríska hermenn til Kænugarðs

Starfsfólk sendiráðsins sneri aftur til borgarinnar í síðustu viku og …
Starfsfólk sendiráðsins sneri aftur til borgarinnar í síðustu viku og dró fánann að húni. AFP

Bandaríski herinn og utanríkisráðuneytið íhuga nú hvort senda eigi sérsveitir úr hernum til Kænugarðs, í því skyni að standa vörð um sendiráðið í borginni sem nýverið var opnað aftur.

Vegast þar á sjónarmið um öryggi bandarískra stjórnarerindreka annars vegar og hins vegar um þá hættu sem fylgt geti aukinni veru herliðs í stríðshrjáðu landinu.

Dagblaðið Wall Street Journal hefur þetta eftir heimildarmönnum sínum innan úr stjórnkerfinu.

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki samþykkt áformin.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur ekki samþykkt áformin. AFP

Forsetinn ekki séð tillöguna

Ríkisstjórnin er sögð vilja forðast að bandarískt herlið í Úkraínu veki löngun hjá Vladimír Pútín Rússlandsforseta til að svara fyrir það með einhverjum hætti, en einnig eru uppi áhyggjur af öryggi starfsfólks sendiráðsins. Talið er nauðsynlegt að hægt verði að koma því á brott í flýti ef ráðist yrði aftur á höfuðborgina.

Hermir blaðið að enn eigi eftir að bera málið undir forsetann, Joe Biden. Ef hann samþykkir tillöguna þá yrði herlið aðeins sent út til varnar sendiráðinu, þangað sem rússneskar flaugar geta enn drifið.

Á sama tíma yrði skrefið ákveðin stigmögnun af hálfu Bandaríkjanna, en Biden hefur áður lofað því að engir bandarískir hermenn verði sendir til landsins.

mbl.is