Lögreglumenn horfðu á mann drukkna

Lögreglumennirnir þrír og Sean Bickings áður en hann stökk í …
Lögreglumennirnir þrír og Sean Bickings áður en hann stökk í vatnið. Ljósmynd/City of Tempe

Þrír bandarískir lögreglumenn hafa verið sendir í leyfi eftir að þeim tókst ekki að bjarga heimilislausum manni frá drukknun. 

Myndskeið úr búkmyndavél lögreglumanna sýnir að hinn 34 ára gamli Sean Bickings hafi farið í Tempe Town stöðuvatnið í Arizona-ríki í maímánuði og varað lögreglumennina við því „að hann myndi drukkna“.

BBC greinir frá því að enginn lögreglumannanna brást hins vegar við og heyrist einn segja á myndskeiðinu: „Ég ætla ekki að stökkva út í á eftir þér“.

Bickings drukknaði skömmu eftir það. 

Ætlaði að fá sér „sundsprett“

Borgaryfirvöld í Tempe Town segja dauða hans hafa verið „hörmung“.

Atvikið átti sér stað um fimm að morgni 28. maí. Lögregla var kölluð á vettvang vegna átaka á milli Bickings og maka hans í miðbænum. 

Í yfirlýsingu frá borgaryfirvöldum sagði að parið hafi verið „samvinnufúst og neituðu að átök hafi átt sér stað“. 

Myndskeiðið sýnir hins vegar að á meðan lögregla var athuga nöfn parsins hafi Bicking klifrað yfir handrið og farið ofan í stöðuvatnið. 

Hann sagði lögreglumönnunum að hann ætlaði að fá sér „sundsprett“ og synti þá í átt að brú, þrátt fyrir að lögreglumennirnir tilkynntu honum að bannað væri að synda í vatninu. 

Bað ítrekað um hjálp

Myndskeiðið úr búkmyndavélinni lýkur þar þar sem að yfirvöld telja næstu málsatvik vera of viðkvæmt efni. 

Afrit af því sem gerðist næst var þó gefið út þar sem kemur fram að Bickings bað ítrekað um hjálp og sagðist vera að drukkna. 

Lögreglumennirnir reyndu að róa maka Bickings sem hafði sífellt meiri áhyggjur en lögreglan tjáði henni að verið væri að sækja bát.

Á einum tímapunkti kallaði hún: „Hann er að drukkna fyrir framan ykkur og þið ætlið ekki að hjálpa.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert