Fyrsta opinbera heimsókn Pútíns eftir innrásina

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur ekki ferðast út fyrir Rússland …
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur ekki ferðast út fyrir Rússland svo opinbert sé, frá því að hann fyrirskipaði innrás til Úkraínu. AFP

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, fer að sögn í opinberar heimsóknir til tveggja ríkja í Mið-Asíu á komandi viku, hinar fyrstu eftir að hann fyrirskipaði innrás rússneska hersins í Úkraínu.

Þar ræðir um Tajíkistan og Túrkmenistan, sem líkt og Úkraína voru áður Sovétlýðveldi, en hafa öfugt við Úkraínu verið náin Rússlandi eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur. Pútín mun hitta Imomali Rakhmon, forseta Tajíkistan, sem hefur reynst hollur bandamaður rússneskra yfirvalda síðan landið tilheyrði Sovétríkjunum.

Í Túrkmenistan mun Pútín svo sitja ráðstefnu ríkja við Kaspíahafið, þar sem leiðtogar Aserbaídsjans, Kasakstans, Írans og Túrkmenistans koma saman. Heimkominn þaðan mun Pútín eiga fund í Moskvu með Joko Widodo, forseta Indónesíu.

Ríkissjónvarp Rússlands greindi frá áformum forsetans í kvöld, en heimsóknirnar verða fyrstu opinberu heimsóknir hans eftir að stríðið hófst í Úkraínu með innrás Rússa hinn 24. febrúar. Síðasta opinbera heimsókn hans, rétt fyrir innrásina, var til Kína.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert