Nokkrir létust í árásinni

Olafur Steinar Gestsson / Ritzau Scanpix / AFP

Nokkrir eru látnir eftir skotárás í verslunarmiðstöðinni Field's í Kaupmannahöfn. Þetta sagði Søren Thomassen yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi rétt í þessu.

Tilkynning barst lögreglunni klukkan hálf sex á staðartíma.

Thomassen greindi ekki frá hversu margir hefðu særst en þrjú skot heyrðust í verslunarmiðstöðinni.

Árásamaðurinn er 22 ára gamall Dani  sem er nú í haldi lögreglu. Upplýsingar benda til að hann hafi verið einn að verki. 

Thomassen gat ekki svarað til um hvort hryðjuverk var að ræða en hann sagði að mjög alvarlegt atvik hefði átt sér stað. 

Uppfært 19:30

Á Twitter greinir lögreglan frá því að að minnsta kosti einn er látinn og nokkrir eru særðir. 

mbl.is