Inngönguferli Svía og Finna í NATO hafið

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP

Ferlið vegna inngöngu Svía og Finna í Atlantshafsbandalagið, NATO, hófst formlega í morgun. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, greindi frá þessu.

„Þetta er góður dagur fyrir Finnland og Svíþjóð og góður dagur fyrir NATO,“ sagði Stoltenberg á blaðamannafundi.

„Með 32 þjóðir við borðið verðum við enn sterkari og fólkið okkar verður öruggara á tímum þegar við stöndum frammi fyrir mesta öryggisvanda síðustu áratuga,“ bætti hann við.

Stoltenberg tjáði sig fyrir fund þar sem reiknað er með að sendiherrar 30 aðildarríkja NATO undirriti skjal í tengslum við inngönguna. Þar með hefst margra mánaða ferli hjá aðildarríkjunum um að veita Finnum og Svíum inngöngu í bandalagið.

„Við erum ótrúlega þakklát fyrir þann mikla stuðning sem við höfum fengið við aðildarumsókn okkar frá bandalagsríkjunum,“ sagði Ann Linde, utanríkisráðherra Svíþjóðar.

mbl.is